Undirmáls-yfirstétt

Greinar

Svartsýni hefur náð tökum á hugum þjóða um alla Vestur-Evrópu, þar á meðal Íslendinga. Hún mælist meðal annars í skoðanakönnunum, sem sýna, að fólk er ekki sátt við foringja sína, býst ekki við neinu góðu af þeirra hálfu og gerir sér litlar framtíðarvonir.

Átakavilji fólks er lamaður. Ráðamenn fyrirtækja draga saman seglin og leggja ekki í ný verkefni. Þess vegna eykst atvinnuleysi á Íslandi og festist í sessi um alla Vestur-Evrópu. Ráðamenn þjóða sjá vandamál hrannast upp án þess að þeir hafi mátt til gagnsóknar.

Bretar eru dæmigerðir. Í skoðanakönnunum segist nærri helmingur þjóðarinnar mundu flytjast úr landi, ef hann ætti þess kost. Krúna og kirkja hafa glatað virðingu. Og undirmálsmaðurinn John Major hefur leyst járnfrúna Margaret Thatcher af hólmi í pólitíkinni.

Fríverzlunarmálin í tollaklúbbnum GATT eru líka dæmigerð. Allur þorri hagfróðra manna veit, að lækkun tolla og annarra múra í alþjóðaviðskiptum bætir hag allra og mest þeirrar þjóðar, sem tollana lækkar. Samt er viðskiptastríð í uppsiglingu milli Vesturlanda.

Undirmálsmenn stjórnmálanna eyða tíma sínum í að fylgjast með gengi sínu í skoðanakönnunum og í að mæla hávaða í þrýstihópum, sem ráðast að almannahagsmunum og koma í veg fyrir, að lífskjör innlendra neytenda séu bætt með því að rjúfa tollmúrana.

Við stýri þjóðarskútanna sofa undirmálsmenn á borð við bandarísku forsetana George Bush og Bill Clinton og evrópsku forsætisráðherrana John Major og Helmut Kohl, svo og franska forsetann Francois Mitterrand. Veður og vindar líðandi stundar ráða ferð þeirra allra.

Þeir svara með sjónhverfingum, er heil Evrópuþjóð tryllist svo af sagnarugli sínu, að hún fremur langverstu stríðsglæpi álfunnar á síðustu hálfri öld. Þeir láta Serba að mestu óáreitta, gráa fyrir járnum, en neita fórnardýrum þeirra um vopn og hernaðarstuðning.

Svokallaðir sáttasemjarar, Cyrus Vance og David Owen, flytja tillögur, sem margfalda vegalengd landamæra Serba og verðlauna stríðsglæpi þeirra. Og Atlantshafsbandalagið hefur greinilega fengið hægt andlát í djúpum svefni, þótt eldar brenni við mæri þess.

Íslendingum er líka stjórnað af undirmálsmönnum, en munurinn er sá, að þeir fara með óhófsvöld. Við búum við ráðherralýðræði í þéttu kófi reglugerða. Valdamiklir ráðamenn okkar hafa reynzt ófærir um að stjórna sjálfum sér og hvað þá að leiða heila þjóð.

Ef stöðvað væri peningabrennslukerfið, sem ráðherrar starfrækja í félagi við banka- og sjóðastjóra, væru meira en nógir peningar til í þessu landi. Ef stöðvað væri styrkjakerfið og innflutningsbannið í landbúnaði, mundu lífskjör almennings snögglega stórbatna.

Misheppnaðir ráðamenn sjá þá leið eina að láta almenning og fyrirtæki herða sultaról í sífellu, en hafa ekki áræði til að skera brott meinsemdir kerfisins til að losa þjóðina úr viðjum og færa henni fé og kjark til að takast á við óþrjótandi framtíðarverkefni.

Vestrænir undirmálsleiðtogar horfa stjarfir á sókn Serba gegn vestrænni siðmenningu og sókn sérhagsmuna gegn vestrænni fríverzlun. Íslenzkir undirmálsleiðtogar horfa stjarfir á verðmætabrennslu í sukki peningastofnana og í verndun gæludýra atvinnulífsins.

Kreppan okkar stafar ekki af fiskileysi, heldur af hugmyndagjaldþroti hinnar úr sér gengnu pólitísku yfirstéttar, bæði hér heima og í nágrannalöndunum.

Jónas Kristjánsson

DV