Skammlíft einkaframtak

Greinar

Þegar gengið er um miðbæ Reykjavíkur, má hvarvetna sjá minnisvarða hrunins einkaframtaks, glæsilegar hallir, reistar á vegum fyrirtækja, sem ekki eru lengur til. Í kreppu nútímans hrynja einhver slík stórveldi nánast í viku hverri einhvers staðar á landinu.

Úrelding fyrirtækja hefur ekki bara dökkar hliðar. Nýir aðilar koma til skjalanna og nýta hallir, tækjakost og mannafla horfinna fyrirtækja. Stundum er nýi reksturinn nútímalegri og færir eigendum, starfsfólki og þjóðfélaginu meiri arð en gamli reksturinn gerði.

Svo virðist þó vera, að slíkar sviptingar séu mun meiri hér á landi en í nálægum löndum og valdi mörgum aðilum töluverðum búsifjum, ekki sízt þjóðfélaginu í heild. Því veldur, að íslenzk fyrirtæki eru nátengdari persónum og ættum en almennt gerist í útlöndum.

Lífssaga íslenzkra fyrirtækja byrjar oft með hugmyndaríkum athafnamanni, sem fyrstur fetar nýja braut. Vegna vanþekkingar í rekstri og stjórn fatast honum oft flugið. Þetta er algengara nú en áður, af því að svigrúm frumkvöðla er oftast minna en það var.

Þau fyrirtæki, sem lifa af fyrsta stigið, lenda oftast í höndum næstu kynslóðar, sem í mörgum tilvikum hefur hlotið uppeldi í rekstri og stjórn fyrirtækja. Þetta er fólk, sem tekur litla áhættu, en getur oft haldið utan um það, sem frumkvöðullinn hafði áður byggt upp.

Einkenni þessa stigs er, að fleiri fjölskyldur en áður þurfa að lifa á eigninni og að þessar fjölskyldur eru dýrari í rekstri en fjölskylda frumkvöðulsins. Þetta ástand verður síðan óbærilegt í þriðju kynslóð eigenda, sem elst upp í vellystingum og sligar fyrirtækið.

Hallirnar við gömlu verzlunargöturnar í miðbæ Reykjavíkur eru minnisvarði um þennan skamma feril íslenzkra fjölskyldufyrirtækja. Enn átakanlegri verður ferillinn úti á landi, því að þar er oft skortur á hæfum aðilum til að byggja upp að nýju á rústum hins gamla.

Bolvíkingar voru orðnir svo vanir að sækja alla forustu til ættarinnar, að þeir hafa átt erfitt með að fóta sig, síðan ættarveldið hrundi. Þeir koma til Reykjavíkur og ímynda sér ranglega, að dyr sjóða, banka og ráðuneyta standi jafn opnar og dyr ættarinnar stóðu áður.

Byggðarlag getur lent í töluverðum hremmingum og jafnvel hrunið, þegar það stendur úti í kuldanum eftir að hafa hreiðrað um sig í hlýju ættarveldis í marga áratugi. Bæjarbúar koma úr vernduðu umhverfi og kunna tæpast að taka ákvarðanir upp á eigin spýtur.

Sumum fyrirtækjum tekst að rjúfa þennan vítahring ættarveldis. Í sumum tilvikum hefur frumkvöðullinn eða erfingjar hans vit á að víkka hlutafjáreign og stjórn þeirra og ná til aðila utan ættar. Fyrirtækið hættir að snúast um ættina og fer í staðinn að snúast um arðinn.

Íslendingar eiga sérstaklega erfitt með að feta þessa braut, sem liggur að baki flestum öflugum fyrirtækjum í útlöndum. Menn fara ekki að hugsa um fyrirtækin sem arðgjafa, heldur halda áfram að líta á þau sem konungsríki, er veiti forstjórum persónuleg völd og aðstöðu.

Þannig líta menn ekki á hlut í Stöð 2 sem tæki til að njóta arðs, heldur sem tæki til að berjast um völd. Það er dæmi um, að ekki er alltaf nóg að rjúfa vítahring fjölskyldufyrirtækjanna, heldur þarf að stíga fleiri skref til að rækta íslenzkum fyrirtækjum varanlegan jarðveg.

Þjóðfélagið getur stuðlað að endurbótum með lögum um gegnsæi fyrirtækja; lögum, sem opna umhverfinu innsýn í rekstur, bókhald og endurskoðun hlutafélaga.

Jónas Kristjánsson

DV