Steypa er innanhússefni

Greinar

Níu milljarðar króna munu framvegis fara á hverju ári í að gera við og klæða steypuskemmdir í húsum, sem byggð hafa verið á allra síðustu áratugum. Ekkert bendir til, að steinsteyptu húsin, sem verið er að reisa um þessar mundir, muni þurfa miklu minna viðhald.

Þetta er bit upp á tæplega hálfan hinn hefðbundna landbúnað, sem kostar 21 milljarð á ári. Þetta er tvöfalt meira en árleg byrði af samanlögðu tjóni af orkuverinu í Blöndu, laxeldisævintýri, loðdýrarækt og öðrum gæluverkum hins opinbera, er kosta fjóra milljarða á ári.

Um tveir áratugir eru síðan menn komust að raun um, að ekki væri allt með felldu í steyptum húsum á Íslandi. Fyrst var talað um alkalískemmdir, síðan frostskemmdir og nú er talað um kalskemmdir. En ekkert raunhæft hefur verið gert til að leysa vandann.

Samt er sagt, að unnt sé að byggja steinsteypt hús á landinu. Er vísað til þess, að það hafi tekizt fyrir stríð og að það hafi tekizt í orkuverum. Ef spurt er, hvers vegna ekki sé þá steypt eins og fyrir stríð eða eins og gert sé í orkuverum, verður fátt um bitastæð svör.

Enginn skortur er hins vegar á sökudólgum. Skeljasandur og kísilryk í sementi eru nefnd til sögunnar. Sömuleiðis sjávarsandur í steypu og uppskriftir í steypustöðvum af annars konar og lakari steypu en hinni ófáanlegu steypu, sem farið hefur í orkuver.

Ennfremur er nefnd til sögunnar langvinn steypuhræring í þar til gerðum bílum, steypuþeyting með þar til gerðum tækjum á vinnustað og almennur handagangur í öskjunni að hætti íslenzkra byggingamanna. En áratugir hafa liðið, án þess að botn fáist í málið.

Einn af sökudólgunum, sem hefur komið í ljós upp á síðkastið, er aukin einangrun innan á steinsteyptum veggjum. Hún flýtir fyrir kali steypunnar. Þess vegna er nú talið, að framvegis muni nást betri árangur, ef einangrað sé utan á steypuna, en ekki innan á hana.

Líta má á þjóðfélagið í heild sem allsherjar tilraunastöð í steypufræðum. Í stað þess að takmarka notkun þessa hættulega efnis við rannsóknastöðvar, meðan leitað er að nothæfri vöru, er steypa notuð villt og galið úti um borg og bý. Allir eru gerðir að tilraunadýrum.

Þessi umsvifamikla tilraun hefur leitt til viðhaldsmarkaðar, sem nemur níu milljörðum króna á hverju ári. Fyrirferðarmiklir á þeim markaði eru töframenn, sem selja ýmis galdraefni, er sum hver gera málið illt verra og engin koma í staðinn fyrir vandaða vinnu.

Fræðimenn á þessu sviði eru orðnir sammála um, að vel framkvæmd viðgerð geti enzt í átta ár. Viðgerðin getur út af fyrir sig verið í lagi að þessum tíma liðnum, en gamla steypan fyrir innan hefur haldið áfram að skemmast. Þess vegna verða viðgerðir að Kleppsvinnu.

Í flestum tilvikum reynist til lengdar hagkvæmast að setja einangrun utan á skemmda steypu og klæða síðan einangrunina með plötum, sem sérstaklega eru gerðar til að verjast veðrum og hafa raunar ekki annað hlutverk. En vanda þarf til vals og frágangs platna.

Með þessu er verið að viðurkenna, að við íslenzkar aðstæður sé steypa svipað innanhússefni og timbur. Eins og klæða varð timburhúsin í gamla daga með bárujárni, verði nú að klæða steypuhúsin með einhverjum þeim plötum, sem hafa leyst bárujárnið af hólmi.

Þannig er með ærnum kostnaði unnt að lagfæra mistök fortíðarinnar. En á sama tíma er á hverjum degi verið að framkvæma ný mistök með nýrri steypu.

Jónas Kristjánsson

DV