Gætu ekki skúrað gólf

Greinar

Þeir bankastjórar og bankaráðsmenn Landsbankans, sem hafa verið þar nógu lengi til að bera ábyrgð á óeðlilega miklu útlánatjóni bankans, eiga auðvitað að segja af sér. Þeir hafa hagað sér eins og bankinn sé félagsmálastofnun fyrir gæludýr kerfisins í atvinnulífinu.

Í skjóli ábyrgðar skattgreiðenda á skuldbindingum Landsbankans hafa hinir ábyrgðarlausu stjórnendur hans ekki getað fullnægt kröfum nýlegra laga um trausta eiginfjárstöðu, þótt bankinn hafi rúman vaxtamun til að afla sér árlegra milljarða í afskriftasjóð.

Bankaeftirlitið hefur lengi varað við slæmri stöðu Landsbankans. Það er því ekki vonum seinna, að ríkisstjórnin grípur til þess ráðs að knýja Alþingi til að heimila blóðgjöf, sem á að hindra, að bankinn fljóti í átt til gjaldþrots. Ríkisstjórnin gat ekki komizt hjá þessu.

Hitt er út í hött, að sukkarar bankans fái að halda áfram að sukka með fé hans. Þess vegna hefði ríkisstjórnin átt að setja það skilyrði fyrir innspýtingunni, að allir þeir ráðamenn bankans, sem tóku þátt í útlánafylliríi síðustu ára, fái reisupassann sinn hér og nú.

Hversdagslegur samdráttur í sjávarafla hefur valdið því, að sum veð bankans eru ótryggari en þau voru. Þetta skýrir þó ekki nema hluta af sukkinu, enda mætti ætla, að menn sem eru á rosakaupi við að passa milljarða, reyni að hafa vaðið fyrir neðan sig í útlánum.

Við megum ekki gleyma, að gæzlumenn banka eru taldir svo mikilvægir, að starfskjör þeirra eru ekki í neinu samhengi við lífskjör þjóðarinnar. Þegar þeir láta af störfum, fá sumir þeirra nítján sinnum meiri lífeyri en verkamönnum er talið bera eftir starfslok.

Ætlast mætti til, að fyrir þessi sérstæðu starfskjör kynnu yfirmenn banka og raunar annarra lánastofnana eitthvað fleira fyrir sér en að velja réttar flugur í laxveiðitúra. En því miður eru þeir svo veruleikafirrtir, að þeir gætu ekki einu sinni skúrað gólf á Sóknarkaupi.

Stundum eru ráðamenn banka afsakaðir með, að þeir verði að fara að tilmælum ráðherra og kjördæmapotara á Alþingi. En í lögum banka eða ráðningarsamningum ráðamanna þeirra segir ekki, að þeir eigi að lúta pólitískri eða félagslegri fjarstýringu utan úr bæ.

Getuleysi bankastjóra og bankaráðsmanna Landsbankans er svipað og í ýmsum fleiri lánastofnunum hins opinbera, einkum sjóðum, sem stofnaðir voru til að þjónusta gæluverkefni kerfisins. Gæzlumenn þessara sjóða hafa ekki heldur verið látnir víkja úr starfi.

Sömu sögu er að segja af tilsjónarmönnum, sem ríkið skipar stundum til að tryggja, að allt fari vel í umsvifamiklum stofnunum. Stjórnarsæti Álafoss voru jafnan skipuð helztu efnahagsvitringum kerfisins, enda varð úr því eitt hrikalegasta gjaldþrot sögunnar.

Helztu valdamenn þjóðmála og fjármála mynda eins konar klúbb, sem svífur í skýjum ofan við íslenzkan raunveruleika. Í þessari paradís eilífs sumars eru peningar alltaf sem sandur og ábyrgð er aldrei nein. Næst jörðinni komast klúbbfélagar á laxárbökkum.

Fámenn þjóð ætti í erfiðleikum við að manna allar mikilvægar stöður, svo að sómasamlegt sé, jafnvel þótt beztu menn væru jafnan valdir. Í samtryggingarkerfi, sem gengur svo langt, að menn eru ráðnir eftir póltík til að spá fyrir veðri, tekst þetta afar sjaldan.

Björgun Landsbankans er enn eitt dæmið um, að þjóðmál og fjármál eru í höndum ábyrgðarlausrar yfirstéttar, sem gæti ekki einu sinni skúrað bankagólfin.

Jónas Kristjánsson

DV