Boris Spasskíj braut bann Sameinuðu þjóðanna við samskiptum við Serbíu á sviði viðskipta, íþrótta og menningar, þegar hann tefldi við Bobby Fischer í Belgrað í fyrra. Ótvírætt er, að bannið náði til skákeinvígis þeirra, sem telst til glæpa gegn samfélagi þjóðanna.
Hömlulaus gróðafíkn leiddi Fischer og Spasskíj út á þá ógæfubraut að þiggja boð heimsþekkts glæpamanns á sviði bankaviðskipta um að rjúfa víðtækt samskiptabann við það ríki, sem síðustu misserin hefur gengið lengst allra ríkja í ógeðslegum stríðsglæpum.
Einvígi Fischers og Spasskíjs var ekki aðeins formlegt brot á formlegri ákvörðun, sem samþykkt var samhljóða í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það var einnig brot gegn óformlegum siðareglum, sem alls staðar á að halda í heiðri. Það var glæpur gegn mannkyninu.
Spasskíj hefur óhreinkað sig svo á þessu máli, að dularfullt er, að til tals skyldi koma, að hann kynnti skák í skólum og tefldi tveggja skáka einvígi við Friðrik Ólafsson, sem er framkvæmdastjóri eins af þremur hornsteinum þjóðskipulags Íslendinga, sjálfs Alþingis.
Fischer er þegar byrjaður að taka út hluta refsingarinnar fyrir sinn ömurlega þátt í auglýsingaskrumi í þágu siðlauss árásarríkis. Hann getur ekki snúið aftur til Bandaríkjanna, því að þar verður hann tekinn fastur og látinn sæta opinberri ákæru fyrir landráð.
Sakarefni Fischers varða í Bandaríkjunum sem svarar 15 milljarða króna sekt og tíu ára fangelsi. Svo alvarlegum augum er þar í landi litið á framgöngu Fischers. Hann er því dæmdur til að lifa sem vansvefta útlagi á sífelldum flótta undan hugsanlegri kröfu um framsal.
Spasskíj nýtur þess, að frönsk stjórnvöld hafa ekki nennt að framfylgja skyldu sinni gagnvart eigin stuðningi við aðgerðir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hann fékk að fara aftur til þess lands, sem skaut yfir hann skjólshúsi, þegar hann hrökklaðist af heimaslóð.
Hins vegar teflir Spasskíj ekki fyrir hönd Frakklands í landsliðseinvíginu við Ísland, sem nú stendur yfir í Reykjavík. Samkvæmt skákstyrk sínum ætti hann að tefla á öðru borði, ef allt væri með felldu. En okkur hefur verið sýnd sú kurteisi að tefla honum ekki fram.
Þar með var málið einfalt gagnvart Skáksambandinu. Frakkar leystu sjálfir mál Spasskíjs gagnvart Íslandi. Þá kemur upp sú einkennilega og siðblinda hugmynd að bjóða heimskunnum siðleysingja sérstaklega til að tefla við Friðrik og jafnvel kynna skák í skólum.
Skáksamband Íslands er að hluta til á framfæri þjóðarinnar samkvæmt ákvörðunum teknum á Alþingi. Eðlilegt er, að endurskoðaður verði stuðningur skattgreiðenda við stofnun, sem gengur þvert á stuðning Íslands við réttmætar refsiaðgerðir á alþjóðavettvangi.
Skáksambandið er auðvitað frjálst að því að hafa engar siðareglur að leiðarljósi. En þjóðfélagið í heild er líka frjálst að því að hafna stuðningi við félagsskap, sem gengur þvert gegn almennri siðgæðisvitund og alþjóðlegum samþykktum, sem Ísland styður á formlegan hátt.
Í staðinn getur Skáksambandið beðið Spasskíj að láta eitthvað af hendi rakna af blóðpeningunum, sem hann fékk í Serbíu í fyrra. Eðlilegt er að slíkir aðilar rotti sig saman um meðferð fjármuna af því tagi og ónáði ekki aðra, sem virða almennar og alþjóðlegar siðareglur.
Spasskíj hefur í taumlausri gróðafíkn valið sér ömurlegt hlutskipti. Ef hann lætur sjá sig í skólum, verður hann persona non grata í augum margra Íslendinga.
Jónas Kristjánsson
DV