Varnarstríð gegn myrkrinu

Greinar

Borís Jeltsín þorði ekki að leysa upp rússneska þingið og efna til nýrra kosninga fyrir rúmu ári, þegar hann var á hátindi valda sinna. Hann taldi sig verða að ná árangri í efnahagsmálum, áður en hann gæti lagt verk sín undir dóm þjóðarinnar í almennum kosningum.

Í heilt ár hefur Jeltsín reynt að semja við þingið um völdin í landinu. Það hefur honum ekki tekizt, enda er þingið arfleifð frá tímum kommúnismans, að mestu skipað fortíðardraugum, sem grafa undan framförum, af því að þeir óttast að missa völd og peninga.

Barátta forseta og þings er ekki barátta innan ramma lýðræðishefðar. Jeltsín einn hefur umboð frá þjóðinni úr beinum lýðræðiskosningum. Þingið hefur ekki slíkt umboð, því að það var skipað á valdatíma kommúnista. Það er spillt og úrelt stofnun, sem þarf að endurnýja.

Nú er þetta verk miklu erfiðara en það hefði verið fyrir rúmu ári. Gamla yfirstéttin hefur náð áttum eftir sviptingar fyrri ára. Hún kann á kerfið og hefur brugðið fæti fyrir umbætur Jeltsíns. Honum er sumpart kennt um, að lífskjör hafa versnað af þessum ástæðum.

Jeltsín ræður ekki lengur ferðinni. Her og lögregla eru orðin að dómurum í skákinni milli forsetaembættis og þings. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Aukin áhrif vopnaðra sveita eru ávísun á ferli, sem leiðir í átt til bananalýðveldis að hætti þriðja heimsins.

Gegn vilja Jeltsíns hefur rússneski flugherinn gert loftárásir á nágrannaríkið Georgíu. Hann getur ekki haldið uppi eðlilegum samskiptum við nágrannaríki, af því að vopnaðar sveitir ríkisins fara sínu fram. Þannig eru hin raunverulegu völd að leka úr greipum hans.

Hætta er á, að Jeltsín sigri ekki í skákinni, þótt hann hafi betur í viðureigninni við fortíðardrauga þingsins. Það verða herforingjar, sem vinna sigur, ef Jeltsín neyðist til að reiða sig á þá. Það boðar aukinn ófrið á landamærum Rússlands og aukna stríðshættu í Evrópu.

Vesturlandabúar geta lítið gert annað en að veita Jeltsín siðferðilegan stuðning. Ekki má endurtaka gróf mistök Norðurlandaráðs, sem bauð til sín helzta andstæðingi Jeltsíns, Rúslan Kashbúlatov þingforseta. Lýðræðisöflin í Rússlandi standa að baki Jeltsíns.

Endurreisn Rússlands er miklu erfiðari en endurreisn annarra ríkja Austur-Evrópu. Efnahagskerfið er enn í höndum gæludýra gamla tímans. Valdastofnanir ríkisins eru þétt skipaðar fólki, sem kann ekki að breyta, vill ekki breyta eða er beinlínis að maka krókinn.

Erlend fjárfesting hefur gefizt illa. Reynslan sýnir, að Rússar kunna ekki að notfæra sér hana. Þess vegna kemur vestræn fjárhagsaðstoð ekki að notum. Framfarir að vestrænum hætti verða að koma að innan. Fólk verður að skilja og skynja vestrænan markaðsbúskap.

Í stað vestræns markaðsbúskapar hefur risið braskmarkaður, óheftur þjófnaður á þjóðareign og alger spilling á Sikileyjarvísu. Fremstir í flokki hafa verið kerfiskarlar Kashbúlatovs sem nota aðstöðu sína í kerfinu til að blóðmjólka það og kenna síðan Jeltsín um ástandið.

Þannig hafa efnahagsvöld lekið úr höndum Jeltsíns eins og hernaðarvöldin. Ákvarðanir hans um helgina voru lokatilraun hans til að stöðva lekann. Hann hefur ákveðið að snúa sér beint til þjóðarinnar og biðja um aukið og endurnýjað umboð til að stjórna landinu.

Takist tilraunin ekki, hverfur Rússland aftur inn í myrkur fortíðar. Takist hún aðeins með stuðningi hersins, verður Rússland aftur hættulegt umhverfi sínu.

Jónas Kristjánsson

DV