Serbíusöfnun

Greinar

Margir hefðu ekki tekið þátt í fatasöfnun Rauða krossins í vetur, ef þeir hefðu vitað, að hjálpin yrði send til Serba, þeirrar þjóðar, sem hefur haldið úti villimannlegasta stríði, sem háð hefur verið í Evrópu í manna minnum. Eftir þessum svikum Rauða krossins verður munað.

Öll aðstoð, sem Serbum er send, nýtist þeim til að halda áfram fjöldamorðum og fjöldanauðgunum, þjóðahreinsun og samningsrofum, sem hafa einkennt árásarstríð þeirra í nágrannaríkjum Serbíu. Öll aðstoðin nýtist þeim til að hefja sama leikinn í Kosovo og Vojvodina.

Allt tal um skipta ábyrgð á stríðinu á Balkanskaga er álíka fáránlegt og að kenna Pólverjum og Bretum um upphaf annarrar heimsstyrjaldarinnar. Og allt tal um, að hjálpin fari til saklausra Serba er fáránlegt, því að þjóðin í heild lætur sér villimennskuna vel líka.

Styrjöldin á Balkanskaga er árásar- og útþenslustríð Serba. Rauði krossinn á að einbeita sér að hjálp við þær þjóðir, sem verða fyrir barðinu á ógeðslegu framferði þeirra. Rauði krossinn á að ekki að safna undir fölsku flaggi og senda aðstoðina beint til árásaraðilans.

Dapurlegt er til þess að hugsa, að íslenzk börn hafa verið virkjuð til stuðnings við árásar- og útþenslustríð, sem er af hálfu Serba háð með svo ógeðslegum hætti, að það er engan veginn prenthæft. Íslenzki Rauði krossinn ber ábyrgð á þessari misnotkun íslenzkra barna.

Hér eftir verður ekki hægt að treysta Rauða krossinum. Ef hann gengst fyrir söfnunum, verður þjóðin fyrst að fá gullvægar tryggingar fyrir því, að árásar- og útþensluþjóðir séu ekki studdar. En bezt væri fyrir Rauða krossinn að hafa hægt um sig í náinni framtíð.

Því miður hafa hjálparstofnanir komizt upp með að veita rangar eða villandi upplýsingar um, hvað verður um það fé eða vörur, sem safnað er. Það kom fram í Sómalíu, að hjálpin þangað fór að mestu til glæpaflokka og að fjölþjóðaher varð að lokum að skerast í leikinn.

Við ættum að hætta að gefa í blindni til hjálparstofnana á borð við Rauða krossinn. Reynslan sýnir, að þær gefa rangar og villandi upplýsingar um, hverjir fái hjálpina. Í vetur héldu menn, að Króatar og íslamar fengju hana. En þeir fengu næstum ekki neitt frá Íslandi.

Einasta vonin um frið á Balkanskaga er, að alþjóðlega viðskiptabannið á Serbíu hafi þær afleiðingar, að efnahagslífið brotni, svo að þjóðin hafi ekki lengur mátt til stríðsglæpa sinna og annarra glæpa gegn mannkyninu. Þess vegna má alls engin hjálp berast Serbum.

Forustumenn Rauða kross Íslands hafa kosið að leika fífl og vísa ábyrgðinni til útlendinga, sem hafi ákveðið, að íslenzka hjálpin ætti að fara til níu staða í Serbíu. Þetta svar nægir ekki, því að það er Rauði kross Íslands sem hafði Íslendinga að fífli í söfnuninni í vetur.

Með framferði sínu drepur íslenzki Rauði krossinn vilja margra til að taka þátt í hjálparstarfi. Fólk leggur af mörkum vegna samúðar með þeim, sem verða fyrir styrjöldum eða náttúruhamförum. Og það vill, að þolendur njóti hjálparinnar, en ekki gerendur hörmunganna.

Við erum sem gefendur ekki skuldbundin til að hlíta því, þótt Rauði krossinn í Lausanne telji sig ekki geta gert upp á milli aðila. Við skulum snúa okkur að hjálparstofnunum, sem geta sannfært okkur um, að hjálpin berist þeim, sem við höfum samúð með, en ekki öðrum.

Eftir svikin við okkur í vetur er eðlilegt, að Rauði krossinn verði framvegis undir smásjá, þegar hann hyggst virkja góðvild Íslendinga eða misnota hana.

Jónas Kristjánsson

DV