Pasta Basta

Veitingar

Loksins er komið til skjalanna veitingahús, sem hefur nýtt pasta á boðstólum á hverjum degi í stað aldraðrar pakkavöru. Pasta Basta á því erindi til okkar. Biðröðin við dyrnar sýnir, að fólk hefur áttað sig á þessu.

Þessi staður er í kjallaraholu við Klapparstíg, þar sem enginn á von á veitingahúsi. Þar er pláss yfir um það bil 30 gesti og 16 til viðbótar í glerskála. Streitulausar og tilviljanakenndar og ódýrar innréttingar hafa tekizt mjög vel. Sætin eru þægileg og stemmningin góð.

Samt er þetta ekki ekta ítalskur staður. Starfsfólk talar íslenzku. Handþurrkur eru úr pappír, svo og hvítir dúkar, sem gestir mega krota á, því að vaxlitir fylgja hverju borði. Ruslið á veggjum og á hillum ofan við glugga væri ekki á dæmigerðum, ítölskum veitingastað.

Helzta einkenni Pöstu Böstu er glerveggur, sem veitir útsýni inn í eldhús. Vel staðsettir gestir geta fylgzt með þjálfuðum handbrögðum matreiðslumanna til að magna upp matarlystina. Við vegginn er skenkur, sem í hádeginu er notaður undir hlaðborð, eitt staðartrompanna.

Þetta hádegishlaðborð kostar aðeins 670 krónur. Þar voru fimm tegundir af köldu pasta, eitt risotto og hrásalat. Innifalið í verðinu er súpa og gott brauð, bakað á staðnum. Súpan reyndist vera snarpheit grænmetis-tómatsúpa með einum of eindregnu tómatbragði.

Pösturnar voru allar góðar og sumar mjög góðar. Þarna voru pastaræmur með túnfiski, pastakuðungar með rækjum, pastapípur með sveppum, pastaþræðir með skinku og með pesto-sósu. Risotto dagsins var með pepperoni. Út þá þetta láta menn svo grana-ost, sem raspaður er á staðnum úr ekta stykkjum af þessum fræga osti.

Á kvöldin eru pöstur heitar, stinnar og fremur góðar. Þá kosta þær um 920 krónur, sem er gott verð, þegar haft er í huga, að þær eru ekki verksmiðjuframleiddar. Boðið er upp á capelli-englahár, conchiglie-kuðunga, sedoni-þræði, tagliatelle-ræmur og ravioli-kodda.

Kuðungafantasía með rækjum var góður og þar að auki fallegur og lystugur réttur. Ræmur með humri voru afar góðar, en humarinn var tæpast nógu meyr. Koddar með sveppum voru einna bezti pastarétturinn.

Ef gestir velja sér eitthvað annað en pasta í aðalrétt, fer reikningurinn fljótlega að rísa til himinhæða þeirra, sem tíðkast á hinum fínu veitingahúsum borgarinnar. En það er engin ástæða til að velja slíka rétti, þar sem fjölbreytt úrval er á boðstólum af góðu pasta.

Fiskisúpa fastaseðilsins reyndist vera tómatsúpa með grænmetisþráðum. Tómatbragðið var hæfilega milt, en humarsoðsbragð yfirgnæfði algerlega saffranbragð, sem boðað var á matseðli. Óvænt voru sniglar skemmtilega sérkennilega engiferkryddaðir. Smokkfiskhringir voru óvenjulega mjúkir og góðir, bornir fram með englahárapasta, en þar vantaði engiferbragð, sem boðað var á seðli.

Sítrónuterta var með góðu og sterku appelsínubarkarbragði. Súkkulaðifrauð var gott. Mjúk og góð var kaffibragðsterta, sem gekk undir nafni ostatertu. Tiramisu er þekktur ítalskur eftirréttur, eins konar búðingur undir súkkulaðiþaki. Ítalskt kaffi er að sjálfsögðu gott.

Jónas Kristjánsson

DV