Frumstæð þjóð

Greinar

Formaður norræna kvikmyndasjóðsins hefur staðfest, að menntaráðherra Íslands hafi beitt sig og sjóðstjórnina óeðlilegum þrýstingi til að fá sjóðinn til að styrkja síðustu kvikmynd skjólstæðings forsætisráðherra Íslands. Þrýstingurinn kom fram í bréfi “á vegum ráðherrans”.

Formaður sjóðsins hefur líka staðfest, að hann og sjóðstjórnin hafi aldrei fyrr sætt þrýstingi af þessu tagi. Eigi að síður féllst stjórnin á að veita rúmlega átta milljóna styrk út á sautján milljóna króna styrkbeiðni Hrafns Gunnlaugssonar til gerðar bíómyndarinnar Hin helgu vé.

Formaðurinn segir óhugsandi, að menntaráðherra annars lands en Íslands hefði komið fram á þennan hátt. Með þessu er formaðurinn að segja, að Íslendingar séu á lægra siðferðisstigi en Norðurlandabúar. Taka verði tillit til þess og sýna hinum frumstæðu þolinmæði.

Því hefur löngum verið haldið fram í leiðurum þessa blaðs, að siðgæðishugmyndir væru frumstæðari á Íslandi en í nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantshafs, Norðurlöndum og engilsaxnesku löndunum. Þessi skoðun virðist nú vera viðurkennd í nágrannalöndunum.

Atburðarásin í styrkveitingu Norræna kvikmyndasjóðsins sýnir, að á Norðurlöndum er litið niður á Íslendinga sem frumstæða ribbalda, er kunni sér ekki hóf í að ota sínum tota. Að því leyti eru þeir taldir vera eins og skrumskæling úr bíómynd eftir Hrafn Gunnlaugsson.

Hálmstráið, sem menntaráðherra Íslands notaði í þrýstingnum á Norræna kvikmyndasjóðinn, var að halda því fram, að formaður sjóðsins hefði í faxi til skjólstæðings forsætisráðherra lofað honum styrki til verksins. Formaður sjóðsins neitar að hafa lofað nokkru í faxinu.

Niðurstaða formanns sjóðsins er, að framvegis muni hann ekki þora að segja við kvikmyndaleikstjóra, að honum líki hugmyndir hans, af ótta við, að slík ummæli verði síðar túlkuð sem loforð um styrk. Óbeint segir hann, að ekki megi rétta Íslendingum litla fingurinn.

Mál þetta varpar skýru ljósi á siðleysi íslenzkra ráðamanna, af því að það rekst á siðvenjur í nágrannalöndunum. Það staðfestir í augum umheimsins, að Ísland sé eins konar Ítalía norðursins, sem ekki geti staðið undir sömu siðferðiskröfum og gerðar eru á Norðurlöndum.

Siðleysi menntaráðherra í máli þessu felst í að misnota aðstöðu sína til að hygla skjólstæðingi forsætisráðherra. Sami ráðherra misnotaði aftur aðstöðu sína til að bola framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins í frí til að hygla þessum sama skjólstæðingi forsætisráðherrans.

Svipað siðleysi kemur fram í eignarhaldi stjórnmálaflokkanna á bankastjórastólum og meira að segja forstjórastóli Veðurstofunnar, svo að nýleg dæmi séu rakin. Það kemur fram í, að litið er svo á ráðherra, að þeir megi haga sér eins og eins konar miðalda-lénsgreifar.

Ábyrgð þjóðarinnar á málinu felst í að velja sér stjórnmálaflokka og -foringja, sem ekki þættu gjaldgengir í nágrannalöndunum. Þetta stafar af, að þjóðin hefur ekki siðferðilegan þroska til að hafna spilltum stjórnmálaflokkum og -foringjum með hugarfari lénsgreifa.

Kjósendur telja þolandi, að fjármálum foringja, flokka og ríkis sé ruglað saman og að mismunandi reglur gildi um Jón og séra Jón. Kjósendur telja þolandi, að ráðherrar séu eins og smákóngar sem skaffi og skammti skjólstæðingum. Kjósendur telja þolandi að búa við hermang.

Meðan þjóðin sættir sig við þetta ástand munu ráðherrar halda áfram að haga sér sem fyrr. Og Ólafur G. Einarsson segir vafalaust ekki af sér sem ráðherra.

Jónas Kristjánsson

DV