Umhverfisfirring

Greinar

Skoðanakönnun bæjarstjórans á Seltjarnarnesi um framtíð svokallaðs Nesstofusvæðis fjallar að mestu leyti um fjármál. Í forsendum könnunarinnar tönnlast hann á, að ná megi sem svarar verði fjögurra einbýlishúsa af sölu lóða á mjög viðkvæmu og merkilegu náttúrusvæði.

Bitur reynsla er af umhverfisfirringu á þessum slóðum. Á Valhúsahæð hefur nokkrum fuglategundum verið útrýmt með tilgangslausum framkvæmdum við þrjú einbýlishús, sem enginn vill kaupa, íþróttavöll, sem enginn vil nota, og tvö hringleikahús fyrir áramótabrennu.

Í fjármáladæmi bæjarstjórans er ekki gert ráð fyrir fjölþættu tjóni, sem kemur á móti framkvæmdagleði hans. Það tjón felst bæði í missi ómælanlegs lífsrýmis, hreyfingarfrelsis og náttúrunautnar, svo og í lækkun verðgildis húsanna, sem fyrir eru á Seltjarnarnesi.

Sumt af þessum kostnaði lendir á bæjarsjóði. Tekjur af lóðasölu eru ekki hagnaður. Á móti kemur kostnaður við þjónustu við fleiri bæjarbúa. Byggja þarf skóla og aðrar þjónustustofnanir og síðan að reka þær. Bæjarstjórinn mun því ekki græða neitt einbýlishúsaverð.

Fjölmennur borgarafundur á Seltjarnarnesi í fyrra mælti nærri einróma með því, að svæðið umhverfis Nesstofu yrði gert að fólkvangi. Sami fundur samþykkti skoðanakönnun meðal bæjarbúa. En bæjarstjóranum hefur tekizt að snúa út úr málinu í framkvæmd könnunarinnar.

Með boðun könnunarinnar fylgir greinargerð, þar sem áherzla er lögð á þær fjárhagslegu falsanir, sem fjallað er um hér að ofan. Þar á ofan er ranglega fullyrt, að fyrirhugaðar framkvæmdir séu allar í samræmi við skýrslu Náttúrfræðistofnunar um náttúrufar á Seltjarnarnesi.

Bæjarstjórinn skákar þar í því skjóli, að hann hefur ekki enn dreift þessari skýrslu til bæjarbúa, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um það. Hann hefur opinberlega sagt, að það verði gert í sumar, en þá er telur hann sig vera sloppinn fyrir horn með hina fölsuðu skoðanakönnun.

Stjórn Náttúrugripasafns Seltjarnarness birti í Morgunblaðinu í fyrradag grein, þar sem hraktar eru lífseigar rangfærslur bæjarstjórans í þessu máli. Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar er nefnilega einmitt varað við, að byggt sé umhverfis Nesstofu og í nágrenni Bakkatjarnar.

Hver einasta af tillögum bæjarstjórans felur í sér röskun á aðstreymi jarðvatns í Bakkatjörn, enda fela þær allar í sér framkvæmdir á náttúruminjasvæði, nákvæmlega eins og framkvæmdir hans á Valhúsahæð. Gildir þá einu, hvort það er rask vegna vega eða húsa.

Eftirtektarvert er, að Félagsfræðistofnun Háskólans lætur ginnast til að rýra álit fólks á skoðanakönnunum almennt með því að beygja sig undir vilja bæjarstjórans, gerast erindreki hans og vísa til rangrar greinargerðar hans í kynningarbréfi hennar til íbúa svæðsins.

Samkvæmt meðferð Félagsfræðistofnunar á málinu getur hagsmunaaðili fengið hana til að velja og orða spurningar í þágu hagsmunaaðilans, til dæmis með því að hafa marga vonda kosti á móti einum góðum og ýta fólki til að velja annan kost, ef hinn góði næst ekki.

Það var með eftirgangsmunum, að uppreisnarmönnum í stjórnmálaflokki bæjarstjórans og öðrum áhugamönnum um varanlega auðlegð í lífsrými, hreyfingarfrelsi og náttúrunautn tókst að koma í könnunina einni spurningu um fólkvanginn, sem var tilefni hennar.

Þrátt fyrir allt svindl hafa þar með íbúar Seltjarnarness tækifæri til að koma í veg fyrir, að firringin á Valhúsahæð endurtaki sig við Nesstofu og Bakkatjörn.

Jónas Kristjánsson

DV