Banthai

Veitingar

Þú skalt ekki gefast upp, þótt matstofan sé á versta stað í bænum, þar sem Laugavegur hefur gleypt Hverfisgötu og breytzt í umferðarholræsi milli Hlemms og Mjólkurstöðvar, þar sem engin þjónustufyrirtæki hafa þrifizt.

Þú skalt ekki gefast upp, þótt matstofan sé harðlæst í hádeginu og veitingamaðurinn, sem er í útréttingum í bankakerfinu, hafi gleymt að snúa við skiltinu, er segir, að staðurinn sé einmitt opinn núna. Reyndu bara seinna.

Þú skalt ekki gefast upp, þótt veitingamaðurinn fari að sýna þér myndir úr árshátíð á efri hæðinni og ósanngjarnar rukkanir frá lögfræðingum. Segðu honum bara af festu og öryggi, að þú sért hvorki ættingi né ráðgjafi, heldur eingöngu kominn til að fá gott að borða.

Þolinmæðina færðu verðlaunaða í ágætum mat í kínverskum anda og á verði, sem er meira að segja lægra en í Laugaási og er þá mikið sagt. Þríréttað kostar um 2.290 krónur. Í hádeginu er svo boðið upp á val milli fimm rétta dagsins, sem kosta 700 krónur að fremur vondu kaffi meðtöldu. Verðið eitt er nægileg forsenda fyrir tilvist þessa litla og ljúfa veitingahúss.

Á efri hæð veitingahússins eru tvö herbergi fyrir samkvæmi og eitt herbergi, sem er innréttað eins og tælenzk borðstofa með sessum á gólfi í stað stóla. Vesturlandabúar eru of fótstirðir til að matast við slíkar aðstæður.

Á jarðhæðinni rúmast alls 24 stólar í notalegum veitingasal, þar sem áður hafa verið tvær samliggjandi íbúðarstofur. Innréttingar eru í þjóðlegum stíl. Útskurður og skinnmyndir eru á veggjum og heilmikil tröllskessa trónir innst. Kertastjakakróna hangir yfir hverju borði.

Almennilegar tauþurrkur eru á rauðköflóttum borðdúkum í hádeginu sem að kvöldi. Að því leyti er Banthai við Laugaveg 130 hátt yfir fjölmarga matstaði hafinn. Tælenzk tónlist er stundum nokkuð hátt stillt, enda þarf veitingamaðurinn ekki að hafa miklar áhyggjur af gestum, því að þá hef ég alls enga séð enn.

Mikið um súrsætt

Djúpsteiktar kjúklingaræmur með grænmeti og útskorinni kartöflu og gulrót voru bragðgóður hádegisverður, að minnsta kosti 700 krónanna virði.

Að kvöldi hef ég prófað afar sterka sjávarréttasúpu með rækjum og sveppum, Í forrétt léttar og góðar wonton-flögur með súrsætri sósu, svo og djúpsteiktan smokkfisk sæmilegan, einnig með súrsætri sósu.

Hrísgrjón með aðalréttum voru mótuð í hleif. Kjúklingur í súrsætri sósu var fremur þurr. Snöggsteiktur lambavöðvi var hæfilega eldaður, sterklega kryddaður með basilíkum. Bakaðar úthafsrækjur með þráðarpasta voru ágætar, en fremur smáar og aðeins tíu talsins.

Ferskt ávaxtasalat reyndist vera ís og þeyttur rjómi, skrautlega upp sett, alveg eins og djúpsteiktur banani með vanilluís og þeyttum rjóma. Eplakaka með hnetum og þeyttum rjóma var ekki pæ, heldur hefðbundin kaka, borin fram volg og góð. Kaffi var gott að þessu sinni.

Ég hef aldrei séð neina aðra gesti á Banthai og hef ekki þorað að spyrja veitingamanninn, hvort hann hafi séð þá. Banthai er staður, sem verðskuldar meiri athygli.

Jónas Kristjánsson

DV