Hrafn Gunnlaugsson verður ekki Seðlabankastjóri, þótt hann geti án efa gegnt því embætti með endurbættum hætti. Embættið er eign annars aflaflokks, sem býður upp á Jón Sigurðsson álversráðherra, er einnig hefur góða reynslu af skömmtun almannafjár til gæludýra.
Jón Sigurðsson leysir af hólmi Jóhannes Nordal, sem hefur verið fulltrúi Alþýðuflokksins í bankastjórninni. Þess vegna á sá flokkur stólinn, en ekki einhver annar aflaflokkur, þótt samstarfsflokkurinn í ríkisstjórninni hafi fleiri kvígildi á framfæri sínu um þessar mundir.
Auðvelt er að vera Seðlabankastjóri, því að bankinn er nokkurn veginn alveg óþörf stofnun, sem ríkisstjórnir hafa notað til að draga fé úr bankakerfinu til gæluverkefna af ýmsu tagi, svo sem afurðalána í landbúnaði. Ekki þarf því að taka tillit til hæfileika lysthafenda.
Fráfarandi Seðlabankastjóra verður tæplega minnst fyrir hinar árlegu og marklausu hómilíur á aðalfundi bankans, heldur fyrir að hafa tekizt að breyta bankanum úr skrifborðsskúffu í Landsbankanum í risavaxinn kastala með 600 milljón króna árlegum rekstrarkostnaði.
Seðlabankanum hefur að mestu mistekizt bankaeftirlitið, svo sem sjá má af gjaldþroti Útvegsbankans og árlegum milljarðaafskriftum tveggja stærstu viðskiptabankanna. Þetta stafar sennilega af, að Seðlabankinn hefur ekki sinnt því að afla sér stjórntækja til eftirlits.
Seðlabankanum hefur algerlega mistekizt að skrá krónugengið, svo sem sjá má af langri sorgarsögu gjaldmiðilsins. Það er alltaf erfitt fyrir stofnun að leika hlutverk markaðsafls. Slíkt verður bara sýndarmennska, svo sem dæmið sannar. Gengi krónunnar á að skrá sig sjálft.
Seðlabankinn hefur hins vegar haft forustu um að efla fínimannsleik í bankakerfinu, þar sem laxveiðar og ytri umbúnaður leysir af hólmi þörfina á góðum bankastjórum til að reka stofnanir sínar eftir þeim heilbrigðu rekstrarvenjum, sem kerfi markaðsbúskapar stefnir að.
Ef bankaeftirlitið væri gert virkt og flutt úr bankanum og ef hætt yrði að skrá gengi krónunnar með handafli, væri ekkert eftir handa Seðlabankanum að gera. Þess vegna mætti gefa bankann til Færeyja, ef ekki fylgdi sá böggull skammrifi, að þar er engin góð laxveiðiá.
Arftaki bankastjórans er einkum þekktur fyrir að hafa verið mánaðarlega í hálft annað ár á fremsta hlunni samnings um nýtt álver. Það væri verðugt verkefni fyrir nýjan framkvæmdastjóra sjónvarps að klippa saman og sýna hinar upphöfnu yfirlýsingar ráðherrans í málinu.
Frammistaða ráðherrans í yfirlýsingaflaumi álversóranna bendir til, að hann geti auðveldlega tekið við flutningi hinna árlegu hómilía Seðlabankans, þar sem þjóðin er hvött til að herða sultaról sem mest hún má, á meðan aflaflokkar stjórnmálanna leika lausum hala.
Alþýðuflokkurinn er að komast í þrot með að útvega fólk í embættin, sem falla honum í skaut við skiptingu aflans. Sérfræðingur flokksins í aukinni ofveiði á þorski er orðinn að veðurstofustjóra og fjárlaganefndarstjórinn er að velja milli ráðherradóms og Tryggingastofnunar.
Í þessu kerfi eru einstök mál leyst með því, að Landsbankinn segir upp 130 fulltrúum pöpulsins, en stjórarnir, sem stóðu fyrir óráðsíunni, eru ósnertanlegir með öllu. Þeir passa meira að segja upp á að ekkert bili í fyrirhuguðum laxveiðiferðum sínum með Lúðvík Jósepssyni.
Verst er, að ekki skyldi vera hægt að gera Hrafn að seðlabankastjóra. Hann hefði flutt hinar árlegu hómilíur af miklu meiri tilþrifum en geta þeir Jóhannes og Jón.
Jónas Kristjánsson
DV