Hver sagði það?

Greinar

Sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í frjálshyggju hefur lengi verið Hannes H. Gissurarson, sem er starfsmaður ríkisháskóla og fær til viðbótar ýmsar greiðslur af borði opinberra stofnana, er styrkja hann til ritstarfa og kaupa þar á ofan af honum hundruð eintaka ritsmíðanna.

Því er haldið fram, að Hannes geti ekki verið málsvari frjálshyggju, þar sem hann sé dæmigerður kerfiskarl, er hafi bæði atvinnu sína og bitlinga hjá stofnunum hins opinbera. Með þessu er verið að rugla saman aðstöðu manna í núinu og skoðunum þeirra á framtíðinni.

Í frönsku byltingunni voru ýmsir helztu talsmenn þriðju stéttar sjálfir af fyrstu og annarri stétt. Þeir voru aðalsmenn, sem höfðu hugmyndafræðilega og pólitíska forustu fyrir tilraunum borgarastéttarinnar til að fá afnumin aldagömul fríðindi og forréttindi aðals og klerka.

Algengt er, að þeir, sem harðast ganga fram í þágu hagsmuna hinna lægst launuðu og annarra þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, séu sjálfir hálaunaðir. Það gerir þá alls ekki vanhæfa, heldur veitir þeim frelsi til að hafa víðsýnar og sjálfstæðar skoðanir á þjóðmálum.

Þannig geta helztu talsmenn samtaka láglaunafólks sjálfir verið hálaunamenn. Þeir geta samt verið þeirrar skoðunar, að launamunur í þjóðfélaginu sé of mikill. Þeir geta samt unnið af alefli að minnkun þessa launamunar í þágu skjólstæðinga sinna í stéttarfélögunum.

Auðvitað getur verið, að hátekjur svonefndra verkalýðsrekenda valdi því, að þeir missi sambandið við raunveruleika hins almenna félagsmanns og verði vanhæfir til starfa. En það getur líka verið, að þeir séu svo hæfir, að borga þurfi þeim vel til að halda þeim í starfi.

Það er mál stéttarfélaganna, hvernig þau mæta þessu tvíeggjaða ástandi, sem felst í, að annars vegar þurfa þau að borga góðum mönnum há laun til að halda þeim og hins vegar að taka áhættuna af, að smám saman kunni hálaunin að grafa undan getu þeirra til að standa sig.

Íslendingar eiga erfitt með að skilja þetta. Fólk á erfitt með að greina á milli skoðana og verka manna annars vegar og stöðu þeirra í lífinu hins vegar. Ef eitthvað er sagt af viti, er ekki litið á innihald þess, heldur er spurt: Hver sagði það og hvers vegna sagði hann það?

Efagjarnar spurningar af slíku tagi eiga auðvitað rétt á sér, en þær mega ekki stjórna viðhorfum fólks til skoðana og verka. Þegar Hannes H. Gissurarson talar eða skrifar, eiga menn fyrst og fremst að meta innihaldið, en ekki þrjózkast við að horfa á kerfiskarlinn sem talar.

Þetta er alveg eins og þegar ritstjóri styður málstað lítilmagnans, þá er nærtækara að líta á innihald textans en horfa á há laun ritstjórans. Eins og ritstjórinn nýtur þess, að flestir horfa aðallega á innihaldið, eiga orð og gerðir Hannesar og verkalýðsrekenda að njóta hins sama.

Frjálshyggja er merkilegt kenningakerfi, sem er raunar einn af hornsteinum vestrænnar siðmenningar. Margir telja, að okkur muni farnast enn betur, ef við færum meira eftir kenningum frjálshyggju og markaðsstefnu og útfærðum þær á fleiri sviðum en gert hefur verið.

Þegar frjálshyggja og markaðshyggja eru til umræðu, ber mönnum að líta á efnisatriði málsins, þar á meðal öfluga rökhyggju hennar og góða reynslu Vesturlandabúa af henni. Hitt skiptir nánast engu máli, hvort einn talsmanna hennar sé sjálfur í opinbera geiranum.

Almennt hefðu Íslendingar gott af að gera skarpari mun á skoðunum og verkum annars vegar og hins vegar á persónum og margvíslegu hlutskipti þeirra í lífinu.

Jónas Kristjánsson

DV