Ef Borís Jeltsín Rússlandsforseti hamrar ekki járnið meðan það er heitt, er farið síðasta tækifærið til að knýja fram vestrænar umbætur í stjórnmálum og efnahag landsins. Þær verða að víkja fyrir ægivaldi þingsins, þótt þær hafi verið staðfestar í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Rúslan Khasbúlatov þingforseti hefur að hefðbundnum hætti kommúnista túlkað sér í hag niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar og segir brýnt, að þingið skipi ríkisstjórn fram hjá forsetanum. Ekki er hið minnsta sáttahljóð í honum eða öðrum fulltrúum gamla kerfisins.
Því lengra sem líður frá þjóðaratkvæðagreiðslunni, þeim mun erfiðara verður fyrir Jeltsín að nýta sér sigurinn í henni. Þess vegna er fráleitt að ætla, að honum takist að ná málamiðlun við kommúnista þingsins, án þess að gefa eftir stjórnmála- og efnahagsumbæturnar.
Rússneska þingið er arfur frá tímum kommúnismans og er enn á þeim nótum. Það hefur hagað sér og mun haga sér eins og það sé hinn raunverulegi valdhafi í landinu. Þessi stefna styðst við gömul form, sem giltu á tíma kommúnisma sovétanna, þótt þau væru þá ekki notuð.
Jeltsín er hins vegar kjörinn forseti eftir lýðræðislegum leikreglum eins og við þekkjum þær á Vesturlöndum. Hann hefur nú í þjóðaratkvæðagreiðslu fengið ótvíræða traustsyfirlýsingu sem forseti. Og efnahagsumbætur hans hafa fengið svipaða traustsyfirlýsingu.
Þar sem stjórnlagadómstóll Rússlands er arfur frá kommúnismanum, úrskurðaði hann, að ekki væri að marka, þótt meirihluti kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni óskaði eftir þingkosningum hið fyrsta. Dómstóllinn setti ítarlegri skilyrði, sem ekki var hægt að uppfylla.
Jeltsín verður að byggja á þeim mun, sem felst í lýðræðislegum og lýðræðislega staðfestum völdum hans og hins vegar í sagnfræðilegum völdum stofnana, sem voru skipaðar á tímum kommúnismans, hafa lítinn stuðning í rússnesku nútímaþjóðfélagi og endurspegla það ekki.
Kashbúlatov og meirihluti þingmanna eru fulltrúar hinna gömlu forréttindastéttar, sem beitir núna öllum klækjum og útúrsnúningum til að varðveita aðstöðu sína sem nómenklatúru í landinu og aðstöðu sína til að blóðmjólka þjóðarbúið til eigin peningalegra hagsbóta.
Með gamla þingið á móti sér, með gamla stjórnlagadómstólinn á móti sér, með seðlabanka ríkisins á móti sér, með skriffinna embættakerfisins á móti sér, með forstjóra ríkisfyrirtækjanna á móti sér, er Jeltsín dæmdur til að tapa málamiðlunum um efnahagsumbætur.
Jeltsín á ekki aðra leið til að nýta sigurinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni í þágu rússneskrar framtíðar en að boða til þingkosninga, svo að nýtt þing endurspegli þjóðarviljann á sama hátt og forsetaembættið gerir. Allar samningatilraunir hans eru ella dæmdar til að mistakast.
Með nýju þingi getur Jeltsín höggvið á hnútinn og fengið nýjan stjórnlagadómstól, nýjan seðlabanka, nýja skriffinna og nýja forstjóra. Líklegt má telja, að meirihluti Rússa muni í þingkosningum styðja frambjóðendur vestrænna umbóta í stjórnmálum og efnahagsmálum.
Staða Jeltsíns er tvíeggjuð. Annars vegar hefur hann og umbótastefna hans unnið eindreginn sigur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar hikar hann við að taka rökréttum afleiðingum sigursins. Í stað þess að senda þingið heim, er hann enn að leita málamiðlunar við það.
Þjóðaratkvæðagreiðslan gaf Rússum lykil að framtíðinni. Nú er það á færi Jeltsíns eins að finna skrána, svo að ljúka megi upp dyrunum. Hann þarf að skipta um þing.
Jónas Kristjánsson
DV