Pára, pára, pára

Greinar

Umboðsmenn Sameinuðu þjóðanna og Evrópusamfélagsins eru ánægðir með sig núna. Þeir Cyrus Vance og David Owen hafa fengið helztu sérfræðinga heimsins í undirritun ótal friðar- og vopnahléspappíra til að pára í annað sinn undir plagg um skiptingu Bosníu.

Markmið allra hinna tuganna af undirskriftum serbneskra árásar- og útþenslumanna hefur hingað til einungis verið tvennt. Í fyrsta lagi að vinna tíma til að halda áfram þjóðahreinsun í nágrannalöndum Serbíu. Og í öðru lagi að tefja fyrir auknum refsiaðgerðum.

Ef eitthvað annað en þetta tvennt hefur knúið umboðsmenn Serba til að pára nafnið sitt enn einu sinni á friðar- og vopnahlésplagg, þá er það sú stefnubreyting Bandaríkjastjórnar eftir forsetaskiptin, að ráðgjafar Clintons hafa síðustu vikur mælt með hernaðaríhlutun í Bosníu.

Fulltrúar Bandaríkjastjórnar hafa lýst efasemdum um ágæti nýjasta friðarsamningsins í Bosníu. Þeir segja, að engin ástæða sé til að draga úr undirbúningi hertra refsiaðgerða og fyrstu hernaðaraðgerða, fyrr en Serbar hafa staðið í verki við þau plögg, sem þeir skrifa undir.

Þetta er annar tónn en hjá Vance og Owen, sem hafa sýnt ótrúlegan barnaskap í samskiptum sínum við Serba. Þessi barnaskapur jaðrar við stríðsglæpi, því að hann hefur auðveldað Serbum að halda ótrauðir áfram þeim fólskuverkum, sem öllum er kunnugt um, er vita vilja.

Að baki Vance og Owens eru þeir, sem þyngsta ábyrgð bera á hryllingnum, leiðtogarnir John Mayor, Helmut Kohl og Francois Mitterrand, svo og George Bush, fyrrum Bandaríkjaforseti. Þeir settu vopnakaupabann á Bosníumenn á sama tíma og Serbar höfðu gnægð vopna.

Er þessi ömurlega saga verður rituð, fer ekki hjá því, að hún staðfesti, að ofangreindir landsfeður hafa bakað Vesturlöndum mikinn kostnað. Hún felst í, að glæpir Serba hafa fordæmisgildi, sem mun verða notað víðar í heiminum og valda Vesturlöndum miklum útgjöldum.

Ofan á óhagkvæmnina bætist svo siðleysið, sem Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefur afhjúpað með kröftugra orðbragði en notað er í forustugreinum dagblaða. Mayor, Kohl, Mitterrand og Bush hafa komið Vesturlöndum á kaldan klaka siðleysis.

Þegar Serbar réðust á sjálfa menningarsögu Vesturlanda með sprengjukasti á Dubrovnik fyrir hálfu öðru ári, mátti öllum þegar ljóst vera, að ekki var um neina venjulega brjálæðinga að ræða. Síðan hafa þeir fært sig upp á skaftið með sérhverri undirskrift sinni.

Markmið þjóðarleiðtoga Vesturlanda og umboðsmanna þeirra í framleiðslu vopnahlés- og friðarpappíra hefur verið að reyna að láta svo líta út sem þeir væru að gera eitthvað fyrir nágrannaþjóðir Serba og vestræna sjálfsvirðingu án þess að vera að gera neitt í raun.

Eitt hafa Serbar þó gert fyrir Vesturlandabúa. Þeir hafa framkallað aðstæður, sem gera okkur kleift að sjá gegnum eigin valdhafa og stofnanir þær, sem þeir styðjast við. Við sjáum, að evrópsk ríkjasamtök og sjálft Atlantshafsbandalagið eru vitagagnslaus í hermálum.

Eftirlitsflug Atlantshafsbandalagsins yfir Bosníu er eitt nýjasta dæmið um sjónhverfingar, sem ráðamenn Vesturlanda hafa reynt að nota til að breiða yfir staðreyndir eigin eymdar. Þetta eftirlitsflug er ekkert annað en kostnaðarsamur og áhrifalaus skrípaleikur.

Það eina, sem Serbar óttast, er, að stjórn Clintons hefji lofthernað gegn þeim og útvegi Bosníumönnum vopn gegn þeim. Því pára þeir og pára nöfnin sín á plögg

Jónas Kristjánsson

DV