Steikhúsið

Veitingar

Steikhúsið við Laugaveg er einn matsölustaða miðbæjarins, sem freistar fólks með hádegisverði á lágu verði. Þar kostar 650 krónur að fá sér súpu og aðgang að fallegu saltaborði. Tilboðið er höfuðprýði þessa staðar.

Á salatborðinu var meðal annars reyktur lax með sinnepssósu, ferskir sveppir og nokkrar tegundir af köldu pasta. Ennfremur hrísgrjónaréttur með kartöflusalati, volgt ræmupasta með kjöti og sveppum, svo og nýbökuð pitsa niðursneidd. Þetta var með betri hádegisverðarborðum, sem ég hef séð, þótt verðið sé með því lægsta.

Innréttingar eru að mestu arfur frá indversku matstofunni, sem var næstsíðast á þessum stað eða þar áður. Timburverk í lofti og þröngir básar eru frá þeim tíma. Í stað indversku skreytinganna eru komnar smíðajárnsgrindur með nautshornalíkingu milli bása.

Nokkrar verksmiðjuframleiddar myndir eftir Baltasar skreyta veggi steikhússins, allar í sömu stærð, allar um mat, fjörlegar myndir, sumar með undarlegu textakroti málhöltu á miðri mynd. Ómissandi koparpottar og koparpönnur falla að ímyndinni, sem reynt er að framkalla.

Þegar við höfum troðið okkur í básana, blasir við okkur glerplata á borði með taudúk undir og diskamottum ofaná, svo að ímyndin lekur niður í mötuneytisstíl. Við fáum matseðilinn og sjáum strax, að þetta er nákvæmlega sami matseðill og var í fyrrasumar.

Vínlistinn er verr valinn en víðast hvar. Þarna má meira að segja sjá Black Tower og Lambrusco, sem ég hélt að enginn byði. En á milli má finna skárri sýnishorn, Santa Cristina, Gewurztraminer og Riesling Hugel.

Volgt brauð fylgdi súpu hádegisverðarborðsins og súpu kvöldsins. Hádegisverðarsúpan var góð tómatsúpa með sveppum og kvöldsúpan var góð brokkáls- og blómkálssúpa, einnig með sveppum. Sniglar voru sæmilegir, bornir fram með of þykku og sterkkrydduðu tómatmauki.

Steikhús þarf að hafa góða steik. Nautalundirnar voru það, rauðar og meyrar, með laukblandaðri sveppasósu.

Meðlæti aðalrétta var staðlað, þar á meðal meðlæti matseðils, sem kallaður var surprise. Ég get ekki hugsað mér minna surprise en staðlað meðlæti. Þetta meðlæti var brokkál, blómkál og sveppir, alveg eins og í súpunni. Líklega ætti fremur að kalla staðinn brokkáls- blómkáls og sveppahús, heldur en steikhús.

Pepperoni-pitsa var fremur lin og nokkuð sterk, keppir ekki til fyrstu verðlauna á Laugavegssvæðinu.

Pönnukökur með ávöxtum og rabarbarasultu voru fremur góðar og ís staðarins var frambærilegur. Kaffi var þunnt. Þótt ég bæði um að fá kaffið ekki á undan eftirrétti og legði mikla áherzlu á það vegna slæmrar reynslu, vissi þjónustan betur og kom með kaffið á undan.

Steikhúsið býður sérstakan surprise kvöldverð. Í ljós kom, að það var karríkrydduð rauðsprettusúpa, nokkuð góð; gráar og þurrar lambalundir með sterkri piparsósu og meðlæti hússins; og loks svipaður ís og var á matseðl i.

Fyrir utan hádegistilboðið er verðið nokkuð hátt. Það slagar upp undir Holt, um 2.880 krónur fyrir þrjá rétti fyrir utan drykkjarföng. Pizzurnar kosta 910 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV