Fremur fáir vita, að fyrir aðeins 800 krónur er hægt að fá ljúfasta hádegisverð á einu allra bezta veitingahúsi landsins. Þetta verð er aðeins steinsnar ofan við ýmis tilboðsverð hversdagslegra veitingahúsa í gamla miðbænum. Miðað við gæði er þetta alveg einstætt tilboð.
Alltaf er notalegt að koma á Tjörnina til Rúnars Marvinssonar. Húsakynni eru í rólyndislegum fyrirstríðsstíl, nokkuð ofhlaðin sófum og hægindastólum í tveimur betristofum. Matstofurnar tvær eru léttari og fínlegri, með ísaumaða og heklaða dúka að einkennistákni.
Þegar komið er af götunni Templarasundsmegin við Kirkjutorgið, blasir hinn notalegi heimur við í mynd bratts timburstiga upp á aðra hæð. Síðan magnast tímaleysið við gluggana, þar sem útsýni er til Alþingishúss og Dómkirkju og til magaveikislegra þingmanna, sem skjótast í rokinu framhjá Mekka matargerðarlistar til að komast í eiturbrasið, sem þeir hljóta að nærast á.
Matreiðslan hefur staðnað á síðustu árum. Með öðru orðalagi þýðir það, að staðurinn hefur fyrir löngu fundið sér farveg við hæfi og hefur síðan haldið sínu striki. Þetta er matreiðslan, sem sló í gegn á Búðum á sínum tíma, allt frá kryddlegnum gellum yfir í svokallaða eilífðartertu súkkulaðis, sem enn prýða matseðla staðarins.
Maturinn er alltaf góður og traustur á Tjörninni, en um leið dálítið fyrirsjáanlegur. Upprunalega kryddlagar- matreiðslan á Búðum var dálítið í ætt við japanska matreiðslu. Síðar gerði Rúnar ágætar tilraunir með matreiðslu í japönskum sushi-stíl, en hefur færzt til baka til sinnar gömlu matreiðslu, til síns persónulega stíls.
Matseðillinn breytist í sífellu eftir aflabrögðum og árstíðum, þótt oftast megi sjá þar gamla vini, sem hafa slegið í gegn. Mig minnir til dæmis, að kryddlegnar gellur og smjörsteikt tindabikkja séu alltaf á seðlinum, enda eru þetta réttir, sem Rúnar kynnti fyrstur manna.
Nýlega prófaði ég í hádeginu súpu og rétt dagsins á 800 krónur. Súpan var ágæt grænmetissúpa og rétturinn var pönnusteikt blálanga með kartöflum og krydduðum hrísgrjónum, mjög góður matur. Í sama skipti var meðal annars á boðstólum mjög fjölbreytt fiskisúpa dagsins með bláskel og skötusel, hörpufisk og eggi, tómötum og blaðlauk. Ennfremur góður silungur úr Vífilstaðavatni, léttilega næturleginn og borinn fram með sojasósu.
Á Tjörninni er stundum hægt að fá gufusoðna bláskel í skelinni, með hvílauk og tómat, ágætis forrétt, eða hvítvínssoðna með sítrónu og grænmetisþráðum, ekki síður góða. Ég hef líka nýlega prófað í forrétt fremur bragðmilda saltfiskstöppu undir bræddum osti og með góðu olífusalati.
Ég man eftir góðum þorskhrognum steiktum með sérstaklega góðri hvítlauksrjómasósu. Ennfremur viðargrilluðu heilagfiski með vínberjum og fersku garðablóðbergi. Og góðri keilu pönnusteiktri með skelfiski og laxahrognum. Meðlæti fiskrétta er stundum nokkuð staðlað.
Um daginn prófaði ég fyrirtaks grænmetisrétt dagsins. Hann var gerður úr mjúkri og bragðgóðri linsubaunakássu, borinn fram undir þaki af pönnusteiktu grænmeti og með bakaðri kartöflustöppu til hliðar.
Eftirréttir eru undantekningarlaust góðir og margfræg súkkulaðiterta staðarins er alveg einstök í sinni röð.
Jónas Kristjánsson
DV