Bezta og ódýrasta austræna matstofan í Reykjavík er Kínahúsið við Lækjargötu. Þar er hægt að fá hádegisverð á 495 og 595 krónur. Hið fyrra var kjúklingasúpa og djúpsteiktar rækjur í súrsætri sósu, hið síðara það sama og að auki karrílamb og hnetukjúklingur. Rækjurnar voru betri og ódýrari kosturinn af tveimur góðum, hæfilega snöggsteiktar, með hæfilega þunnum steikarhjúp.
Austrænir veitingastaðir á Vesturlöndum þjóna annars vegar því fólki, sem hefur alizt upp við slíkan mat og hins vegar Vesturlandabúum, sem vilja annað hvort eða hvort tveggja, fara út að borða fyrir lágt verð eða hafa tekið þessa framandlegu matreiðslu í sátt eða fóstur. Hér á landi hefur hins vegar tíðkazt, að austrænar matstofur séu á nokkurn veginn vestrænu verði. Kínahúsið er ein af fáum undantekningum þessa íslenzka vandamáls.
Á kvöldin er líka ódýrt að borða í Kínahúsinu. Þá er hægt að velja milli nokkurra fjögurra rétta matseðla á 1750 krónur. Þeir fela í sér kjúklingasúpu, vorrúllu, mismunandi aðalrétti og loks djúpsteiktan banana með ís. Þetta eru ekki frumlegir kostir, heldur þvert á móti einkennisréttir kínverskra veitingahúsa á Vesturlöndum.
Kjúklingasúpan var nokkurn veginn hin sama á hádegisverðar- og kvöldverðarseðlinum. Þetta var bragðmild súpa að kínverskum hætti, tær og lystug, með kjúklingabitum, stundum með sveppum eða núðlum að auki.
Hádegisverði Kínahússins var ekki ausið upp úr hitakössum, heldur var hann steiktur fyrir hvern gest fyrir sig. Þess vegna ber staðurinn höfuð og herðar yfir ýmsa staði, sem einnig eru að keppa um hádegismarkaðinn og byggja að mestu á pottrétti eða pastarétti og köldu borði.
Áður er getið djúpsteiktu rækjanna, sem eru staðarsómi. Kjúklingur hádegisverðarins var í senn hæfilega meyr og hæfilega þéttur í sér, borinn fram með heilum hnetum. Lambakjötið var líka hæfilega eldað, borið fram með mildri karrísósu. Allt var þetta á einum diski
Að kvöldi prófaði ég nýlega í tvígang afar fína vorrúllu með þunnri, stökkri skorpu. Þetta var allt önnur vara en sú, sem margir þekkja úr pökkum matvörubúðanna. Þetta er lúxusrúlla með fjölbreyttu innihaldi, nokkuð breytilegu frá degi til dags, og súrsætri sósu. Venjuleg vorrúlla hússins var eins elduð, en innihaldið einfaldara.
Súpur staðarins voru yfirleitt mildar og tærar að kínverskum hætti. Þar á meðal var einföld sjávarréttasúpa með eggjahvítu og rækjum. Sterkari og þykkari var karríkrydduð andasúpa, sem minnti fremur á Indland en Kína.
Hörpudiskur er viðkæmur og verður seigur, ef hann er eldaður um of. Í Kínahúsinu var hann meyr og fínn, borinn fram með ananasbitum í góðri sítrónusósu. Súrsætur kjúklingur var líka vel eldaður, hæfilega snögglega djúpsteiktur. Pekingönd með bambus og sveppum var hins vegar ekkert betri en gengur og gerist.
Sæt vorrúlla með negulkrydduðu eplamauki var skemmtilegur eftirréttur. Djúpsteiktur banani með ís var nákvæmlega eins og hann er í öllum kínverskum veitingahúsum. Kaffi staðarins var með bezta móti.
Kínahúsið er vel í sveit sett á horni Lækjargötu og Skólabrúar. Innréttingar eru einfaldar, ekki ofhlaðnar Kínaskrauti. Andrúmsloftið er rólegt og notalegt.
Jónas Kristjánsson
DV