10. Istanbul – Kvennabúrið

Borgarrölt
Istanbul - Topkapi sultan's bedroom

Svefnherbergi soldáns í kvennabúrinu

Kvennabúrið

Viðamestu húsakynni hallar soldáns eru kvennabúrið í norðvesturjaðri garðanna. Þar höfðust við konur soldáns undir stjórn soldánsmóður og sveitar svartra geldinga. Þar voru líka fangelsi soldánsbræðra til að hindra uppreisnir af þeirra hálfu. Flestar voru konurnar 1000 talsins í þessum vistarverum. Þær síðustu voru reknar út á gaddinn árið 1909, þegar gjaldþrota veldi soldáns var að hruni komið.

Í kvennabúrinu má sjá svefnsal soldáns, stofu og borðstofu hans og stofu móður hans, vistarverur kvenna og geldinga. Mikið er af fínlegu skrautvirki í veggjum, einkum blómabeðju-vindingum að hætti múslima.

IMG_0047

Vistarverur í kvennabúrinu

Skartgripasafnið

Vinsælasta safnið í Topkapi er skartgripasafn soldáns, sem glóir allt af þúsund stærstu og dýrustu eðalsteinum. Frægastur er þar Topkapi rýtingurinn, er var smíðaður í Istanbul, gjöf frá soldáni til keisarans í Persíu, sem dó svo, áður en hægt væri að afhenda gjöfina.

Vandað er til uppstillingar gripanna og miklar öryggisráðstafanir. Ráðlegt er að skoða safnið strax við opnun, því að örtröð verður mikil, þegar líður á daginn og erfitt að sjá dýrðina fyrir mannmergð.

Kaffihúsið

IMG_0066

Útsýni frá Topkapi yfir Sæviðarsund til Asíu

Gott er að hvíla sig með tyrknesku kaffi í Konyali, sem situr fremst á klettabrúninni með útsýni yfir Sæviðarsund. Sem veitingahús er Konyali ekki merkilegt og því farsælast að láta kaffið duga á útsýnissvölunum aftan við veitingasalina.

Næstu skref