Stólar & stöður hf.

Greinar

Alþýðuflokkurinn er þessar vikur að ná ýmsum helztu markmiðum stjórnarsamstarfsins. Tveir ráðherrar flokksins fá úthlutað af ránsfeng flokkakerfisins og formaður fjárveitinganefndar fær sama hlut af þessum ránsfeng fyrir að láta öðrum eftir ráðherraembætti.

Jón Sigurðsson bankaráðherra fær á næstunni úthlutað hægum sessi seðlabankastjóra, Eiður Guðnason umhverfisráðherra fær fljótlega úthlutað friðarstóli sendiherra í Osló og Karl Steinar Guðnason fær síðar í sumar úthlutað legubekk forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins.

Stjórnmálaflokkarnir telja ekkert athugavert við, að flestar toppstöður opinbera geirans séu skipaðar fólki, sem hefur það eitt sér til ágætis að vera í stjórnmálaflokknum, sem samkvæmt kvótakerfi flokkanna og flokksstimpli ráðherra telst eiga stólinn og stöðuna.

Kjósendur eru sáttir að kalla við þessa tilhögun og ætlast ekki heldur til neinna afreka af þeim, sem fá úthlutað af ránsfeng flokkanna. Samkvæmt íslenzkri málvenju heita vel launuð embætti “stólar” og lakar launuð embætti “stöður”. Þau heita alls ekki “störf”.

Íslendingar stukku úr miðöldum inn í nútíma án þess að sæta eldskírn hinnar borgaralegu byltingar, sem afnam forréttindi yfirstéttarinnar og kom á fót sérstæðu kerfi valddreifingar og siðvæðingar, sem oft er kallað lýðræði. Við erum enn þegnar, ekki orðnir borgarar.

Þess vegna telja margir Íslendingar ásættanlegt náttúrulögmál, að til sé í landinu yfirstétt, sem ekki þurfi að réttlæta stöðu sína með afreksverkum, heldur sé bara til eins og af guðs náð. Bankastjórar verða þó helzt að kunna til verka í laxveiði og geta stundað villt útlán.

Með stuðningi kjósenda hafa íslenzkir stjórnmálamenn komizt upp með að halda áfram að haga sér eins og ránsgreifar frá miðöldum. Markmið þeirra er að komast í skammvinnt sæluríki ráðherradóms til að nota þá vist til að útvega sér varanlegra embætti opinbert.

Þetta er þjóðhagslega óhagkvæm aðferð við að skipa toppstöður. Íslendingar eru fámenn þjóð og hafa ekki efni á að hafna hæfum mönnum á þeim forsendum, að þeir eru annað hvort ekki á framfæri stjórnmálaflokks eða ekki á framfæri rétta flokksins þá stundina.

Þetta er líka þjóðhagslega óhagkvæm aðferð við að reka stjórnmálaflokka. Í rauninni verða þeir málefnalega hver öðrum líkir, því að öll orka ráðamanna þeirra fer í myndun eiginhagsmunabandalaga um að komast í aðstöðu og peninga, stöður og stóla, spillingu og lax.

Þannig verða minni spámenn veðurstofustjórar og tímabundnir framkvæmdastjórar sjónvarps, en hinir meiri verða seðlabankastjórar, sendiherrar í Osló og forstjórar Tryggingastofnunar. Sameiginlegt þeim öllum er, að þeir eru ekki manna hæfastir til embættisins.

Á öllum þessum sviðum eru til ágætir fagmenn, sem ekki verða kallaðir til afreka, af því að þeir eru ekki hluthafar í félaginu Stólar & stöður. Við eigum ágæta fagmenn í fjármálum, mannasiðum, rekstrartækni og stjórnun, sem eru hæfari hinum útvöldu ránsgreifum.

Sumarið 1993 er mögnuð staðfesting á seiglu hins séríslenzka miðaldakerfis ábyrgðarlausrar yfirstéttar. Í einum pakka fær duglegasti spillingarflokkurinn úthlutað á næstu vikum fjölmörgum gullum af sameiginlegum ránsfeng flokkanna. “Stólar & stöður hf.” eru í blóma.

Svona verður ástandið áfram, þjóðinni til ófarnaðar og ógæfu, meðan hún sættir sig við stjórnmálaflokka, sem eru reknir eins og hlutafélag um stóla og stöður.

Jónas Kristjánsson

DV