Esja

Veitingar

Útibú Laugaáss á Hótel Esju er fyrsta flokks landkynning. Þar fá erlendir ferðamenn hina traustu sjávarréttamatreiðslu, sem einkenndi móðurstaðinn við Laugarásveg frá upphafi, þegar enn var ekki komið í tízku að borða fisk, hvorki hér á landi né heldur í útlandinu.

Matreiðslan er heldur betri á nýja staðnum og raunar einnig nokkru dýrari. Fyrir utan kunnuglegan seðil dagsins er langur fastaseðill, sem ekki er til bóta, svo og fiskréttahlaðborð, sem er eins konar kynning fisktegunda og matreiðsluaðferða fyrir nýjungagjarna útlendinga.

Á kalda hluta hlaðborðsins mátti fá fjórar gerðir af góðri síld, skemmtilega hrognakæfu, lax og rækjur í hlaupi, grafinn karfa sæmilegan með dósaperum, ferska síld og steikta ýsu. Á heita hlutanum voru kryddlegnar gellur, pönnusteikt rauðspretta, steinbítur í karrí, súrsæt ýsa og þjóðlegur plokkfiskur, allt sæmilegur matur, en háð annmörkum hitakassa, sem jafnan fer illa með fisk.

Dagsseðillinn beztur

Þeir, sem ekki þurfa skyndikennslu í fisktegundum og matreiðsluaferðum, ættu heldur að snúa sér að seðli dagsins. Þar eru jafnan nokkrir réttir úr ferskum fiski og það eru þeir réttir, sem eru í samræmi við hefðina frá gamla Laugaási og hafa byggt upp frægð staðarnafnsins. Þeir eru hér því miður nokkru færri en á gamla staðnum.

Ekki er allt sem skyldi. Brauð með súpu dagsins hefur stundum verið gott og stundum ómerkilegt. Súpur dagsins hafa stundum verið of þykkar hveitisúpur. Og lambagrillsteik með béarnaise-sósu var ekki merkileg.

Sjálfir fiskréttirnir hafa undantekningalaust verið góðir. Ég prófaði nýlega mjög góða rauðsprettu með rauðri camembert-sósu og miklu af rækjum, ennfremur úrvals steinbít rjómasoðinn, með grænmeti og gráðosti, svo og fallega grillaðan skötusel með mildri piparsósu.

Skyrterta var fremur góð, borin fram með skemmtilegri ávaxtasósu. Súkkulaðiterta var hversdagsleg. Þeyttur rjómi var með báðum tertunum. Ítölsk kaffivél sjálfvirk er á staðnum, eins og svo víða hér á landi.

Meðalverð súpu og aðalréttar dagsins er um 1200 krónur í hádeginu og um 1260 krónur að kvöldi. Hlaðborðið kostar 1100 krónur í hádeginu og 1480 krónur að kvöldi. Sérstakur barnamatseðill er til reiðu á 350 krónur.

Kaldur hótelstíll

Tekið er á móti gestum við innganginn og þeim vísað til sætis í reykhluta eða reyklausum hluta eftir óskum þeirra. Staðurinn er töluvert stærri en hinn gamli, snyrtilega innréttaður, en ekki eins huggulegur og gamli staðurinn, enda hannaður í köldum hótelstíl nútímans.

Borðin standa í skipulegum mötuneytisröðum. Blóm á borðum og í hangandi pottum milda svipinn. Húsbúnaður er vandaður, allt frá borðum og stólum yfir í diskamottur. Speglar til beggja hliða og fyrir enda stækka salinn óþarflega mikið, því að hann er nógu stór fyrir.

Gamli Laugaás tók markverðan þátt í veitingabyltingu Íslands fyrir tæplega hálfum öðrum áratug. Ánægjulegt er, að í þessu úthaldslausa þjóðfélagi skuli vera til stofnanir, sem halda staðli og reisn um langt árabil.

Jónas Kristjánsson

DV