Sunnudagafoss

Greinar

Það var sterk persóna, sem átti Gullfoss og neitaði að láta hann í té til orkuöflunar, þegar verkfræðingahættu bar að höndum snemma á öldinni. Annar einstaklingur í sömu sporum hefði ef til vill fórnað fossinum fyrir nokkra skildinga, landi og þjóð til óbætanlegs tjóns.

Nú hafa ríki og stofnanir á þess vegum fyrir löngu eignazt allan nýtingarrétt á fossum landsins. Þar með ætti brask með fossa að vera úr sögunni. Því miður hefur það síður en svo leitt til minni hættu á, að verkfræðingar fái að spilla nokkrum frægustu fossum landsins.

Fyrir nokkrum áratugum gældu opinberir verkfræðingar við hugmynd um að virkja Gullfoss á þann hátt, að hleypt yrði vatni á fossinn á sunnudögum, svo að hægt yrði að skipuleggja skoðunarferðir þrátt fyrir nýtinguna. Hugmyndin var að sjálfsögðu hlegin í hel.

Þessi draugur er enn kominn á kreik. Nú er fórnardýrið Dettifoss, kraftmesti og hrikalegasti foss landsins. Draugurinn var vakinn upp á draumóraráðstefnu verkfræðinga og embættismanna um að leggja hund til útlanda til flutnings á niðurgreiddu rafmagni.

Verkfræðingar ættu að takmarka drauma sína við virkjanir, sem eru í samræmi við orkuþörf þjóðarinnar. Stóriðjudraumar hafa reynzt okkur dýrt spaug, svo sem Blönduvirkjun sannar. Órar um rafmagnshunda á sjávarbotni munu geta orðið okkur margfalt dýrari.

Þjóðin greiðir niður rafmagn til járnblendiverksmiðju á Grundartanga, sem rambar á barmi gjaldþrots, og pumpar þar á ofan í hana opinberu fé á nokkurra mánaða fresti. Og það er umdeilanlegt bókhaldsatriði, hvort orkan til álversins í Straumsvík stendur undir sér.

Hingað til hefur reynzt seintekinn gróðinn af stóriðjunni, enda hefur hún að mestu blómstrað í skjóli opinbers handafls, en ekki verið náttúruleg útvíkkun á íslenzku atvinnulífi eða á þekkingu og hugviti, sem þróast á löngum tíma á helztu vaxtarsvæðum atvinnulífsins.

Ef verkfræðingar og embættismenn eru að reyna að reikna gróða í óra sína, er lágmarkskrafa, að þeir haldi útreikningunum innan ramma verðmætamats þjóðarinnar. Ef rafmagnssala til útlanda kostar virkjun Dettifoss, er farsælast að gleyma henni umsvifalaust.

Náttúruverndarráð er annað dæmi um, að ekki er allt fengið með opinberu tangarhaldi á málefnum þjóðarinnar. Sú opinbera stofnun hefur stundum vakið óhagkvæma athygli, eins og þegar hún losaði sig við landvörð fyrir að bægja opinberum veiðiþjófum frá Veiðivötnum.

Nú hefur forstjóri þessarar opinberu stofnunar sagt í viðtali við DV, að halda verði Dettifossi í “ásættanlegu vatnsmagni yfir ferðamannatímann”. Þar með er gamli draugur hugmyndarinnar um sunnudagafossa kominn að nýju á kreik, en nú í formi sumarfossa.

Ummæli forstjóra íslenzkrar náttúruverndar sýna, að sá málaflokkur er síður en svo öruggur í faðmi hins opinbera. Það verður ekki Náttúruverndarráð, sem bjargar Dettifossi. Fólkið í landinu verður sjálft að kveða niður ótrúlega seigan draug sumar- og sunnudagafossa.

Við erum svo heppin þjóð, að við þurfum ekki að velja. Við eigum meira en nóga orku til okkar þarfa, bæði vatnsorku og jarðhita, án þess að þurfa að fórna neinum frægum fossi. Við getum meira að segja komið á fót margvíslegri stóriðju án slíkra örþrifaráða.

Draumar fá stundum eigið líf, ef ekki er gripið í taumana í tæka tíð. Þjóðin þarf að senda skýr skilaboð um andstöðu við sumar- og sunnudagaútgáfu af Dettifossi.

Jónas Kristjánsson

DV