Göreme
Frá Konya er þriggja tíma bílferð til Kayseri og Göreme í Kappadókíu, sem er nákvæmlega í miðju Tyrklandi. Þetta er svæði afar undarlegra steindranga og hýbýla, sem höggvin eru í kletta og dranga. Kappadókía þýðir land hinna fögru hesta.
Bergið í svæðinu er myndað af öskufalli. Það er hart á yfirborðinu og gljúpt hið innra. Þegar grafið er í það, er aðeins skelin hörð. Þegar komið er inn úr henni, er auðvelt að höggva bergið, sé það gert, áður en bergið gengur í samband við súrefni og harðnar. Úr þessu má grafa út hýbýli.
Þarna eru drangar, kallaðir álfastrompar, í líki reistra lima með hettu, sumir grafnir að innan. Veður og vindar grófu út landið, en hrauntoppar hlífa dröngunum, sem stóðu af sér landeyðinguna.
Kristið fólk leitaði þarna hælis undan sigurgöngu múslima á 9. öld. Þarna eru átta hæða fjölbýlishús neðanjarðar, klaustur og 30 kirkjur með austrómverskum freskum á veggjum.
Svæðið er friðað og hefur verið gert að þjóðgarði. Margir túristar fara í ferðir með loftbelgjum yfir svæðið, en aðrir taka sér rútuferðir um það og bogra um vistarverurnar.