Við lúrum á aurum

Greinar

Ríkisstjórnin telur, að þjóðin hafi engan veginn verið blóðmjólkuð. Hún telur, að einstaklingar og fyrirtæki lúri enn á aurum, sem nýta megi til svokallaðra sameiginlegra þarfa þjóðarinnar. Hún ætlar þess vegna að finna upp nýja skatta og hækka suma þá, sem fyrir eru.

Um mánaðamótin verður lagður 14% skattur á ferðaþjónustu og fjölmiðlun. Næsta vetur verður farið að innheimta fjármagnstekjuskatt. Og almennt er reiknað með, að tekjuskattur verði hækkaður um áramótin, enda ætlar ríkisstjórnin að ná í nokkra milljarða til viðbótar.

Um leið hyggst ríkisstjórnin halda áfram að fjármagna hluta hallarekstrar síns með lántökum á innlendum markaði. Hún mun halda áfram þeirri áralöngu hefð, að ríkið hafi sem umsvifamikill lántakandi forustu um að auka eftirspurn peninga og hækka vexti í landinu.

Núverandi fjármálaráðherra er þegar orðinn skattakóngur Íslandssögunnar og mun slá persónulegt met sitt á þessu ári. Ríkisstjórnin í heild hefur slegið Íslandsmet í stækkun hlutdeildar hins opinbera í þjóðarbúskapnum á kostnað hlutdeildar fyrirtækja og einstaklinga.

Afrek stjórnarinnar á þessu sviði byggjast að nokkru leyti á þeirri skoðun, að hér sé engin kreppa, heldur eins konar sefjun, sem byggist á fjölmiðlafári. Innifalið í skoðuninni er, að atvinnuleysi hafi fyrir löngu verið orðið tímabært og megi gjarna aukast að útlendum hætti.

Ríkisstjórnin telur atvinnuleysi einna mikilvægustu leiðina til að halda kröfuhörku almennings í skefjum og afla vinnufriðar til að hækka skatta og minnka þjónustu við almenning. Eiginlega má segja, að hún telji almenning vera stærsta vandamál yfirstéttarinnar í landinu.

Stefnan hefur gengið svo vel, að verkalýðsrekendur fallast á, að innihald nýrra þjóðarsátta felist í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um, að hún ætli að einhverju leyti að standa við fyrri yfirlýsingar sínar úr eldri þjóðarsáttum. Nýju loforðin eru eins marklaus og hin gömlu voru.

Í fyrrahaust reyndi ríkisstjórnin að klípa utan af velferðarkerfinu, einkum í heilsugæzlu og menntastofnunum. Hún telur, að stækkun ríkisgeirans eigi ekki að skila sér í aukinni þjónustu við almenning, heldur eigi hún að nýtast grundvallarhugsjón ríkisstjórnarinnar.

Þessi grundvallarhugsjón felst í að halda merki hefðbundins landbúnaðar hátt á lofti. Í því skyni leggur stjórnin á þessu ári níu milljarða króna á herðar skattgreiðenda og tólf milljarða króna til viðbótar á herðar neytenda. Þetta er eitt af Íslandsmetum hennar.

Enda má vera augljóst, að sú þjóð er ekki fátæk, sem telur sig hafa efni á að brenna árlega 21 milljarði króna á altari kúa og kinda. Hún ætti ekki að vera að kvarta og kveina um peningaleysi og vaxtabyrði, atvinnuleysi og óáran. Slíka þjóð má auðvitað mjólka enn frekar.

Ekki má gleyma því, að þjóðin hefur sjálf valið sér leiðtoga til að leggja niður skóla og heilsugæzlustöðvar, svo að auka megi peningabrennslu í hefðbundnum landbúnaði og ýmsum gæluverkefnum hins opinbera. Þjóðin hefur fengið þá ríkisstjórn, sem hún á skilið.

Í stórum dráttum hefur í kosningum og kjarasamningum verið staðfest þjóðarsátt um að færa þjóðfélagsgerðina í auknum mæli frá velferðarríki heimilanna yfir í velferðarríki gæludýranna. Meðan þessi þjóðarsátt er í gildi, ætti fólk ekki að vera kvarta yfir kreppu.

Smíði nýs fjárlagafrumvarps mun í sumar markast af þeirri vissu fjármálaráðherra og ríkisstjórnar, að þjóðin lúri enn á aurum, sem hafa megi og beri af henni.

Jónas Kristjánsson

DV