Margt þarf að breytast, svo að unnt verði að halda uppi sjálfstæðu þjóðfélagi við fámenni og einangrun Íslands fram eftir næstu öld. Hætt er við, að blóminn úr ungu kynslóðunum reyni að flytjast á brott, ef við festumst í gömlum atvinnugreinum og atvinnuháttum.
Til þess að framtakssamt fólk vilji festa rætur hér á landi, þurfum við að líta til atvinnugreina og atvinnuhátta framtíðarinnar. Við þurfum að búa svo um hnútana, að ungt fólk geti horft með bjartsýni fram á veg og hafi menntun, aðstöðu og kjark til að nýta sér hana.
Við þurfum á hverjum tíma að leggja mesta áherzlu á þróun hátekjugeira á borð við gerð hugbúnaðar fyrir tölvur. Sumpart er hægt að reisa þá á grunni tækniþekkingar úr hefðbundnum greinum. Tölvuþróun í tengslum við siglingar og sjávarútveg er gott dæmi um það.
Mikilvægt er, að sem mestur hluti atvinnulífs Íslendinga sé í nýjum greinum vaxtar og hárra tekna og sem minnstur í gömlum greinum, þar sem keppa þarf við ódýra vöru og þjónustu frá láglaunalöndum. Við þurfum að breyta ört til að verða í fararbroddi lífskjara.
Við eigum ekki að keppa að stækkun atvinnugreina, þar sem ómenntað fólk stendur daglangt við færibönd, heldur keppa að stækkun greina, þar sem hámenntað fólk selur hugvit og þekkingu til þeirra þjóða, sem hafa ekki náð að hlaupa eins hratt og við inn í framtíðina.
Við þurfum að gera fiskvinnsluna eins sjálfvirka og mögulegt er og selja útlendingum þekkingu okkar á því sviði. Við eigum fremur að efla hönnun en beina framleiðslu. Við eigum að losa okkur sem hraðast við sem mest af hefðbundum landbúnaði í vonlausri samkeppni.
Við sætum um þessar mundir átta þúsund manna atvinnuleysi og þurfum að útvega tólf þúsund störf til viðbótar handa þeim, sem koma á vinnumarkað á sjö árum, sem líða til aldamóta. Þetta verður erfitt, því að sjávarútvegur mun ekki gefa mikið svigrúm á næstu árum.
Þessi þörf fyrir samtals tuttugu þúsund störf segir ekki alla söguna. Ef takast á að ná þeim markmiðum, sem hér hefur verið lýst, þarf að færa að minnsta kosti tíu þúsund störf frá úreltum greinum á borð við landbúnað, ýmsum færibandagreinum og annarri útgerð láglauna.
Við eigum ekki að sóa tugum milljarða á hverju ári til að varðveita atvinnugreinar og atvinnuhætti fortíðarinnar. Við eigum að nota þessa peninga til að mennta þjóðina í hátæknigreinum, efla trú hennar á framtíðarmöguleikana og þor hennar til að takast á við þá.
Við eigum alls ekki að láta atvinnuleysi líðandi stundar hrekja okkur út í þann vítahring að fara í auknum mæli að greiða niður láglaunastörf af ýmsu tagi og búa til þykjustuverkefni á því sviði. Slíkt dregur okkur bara dýpra niður í svaðið, sem við þurfum að lyfta okkur úr.
Ef við höldum áfram áherzlu á hefðbundinn landbúnað, gæludýrasukk og aukna atvinnubótavinnu, munum við standa andspænis 15-20% atvinnuleysi um aldamótin, vonleysi og atgervisflótta. Atvinnuleysi líðandi stundar má ekki mæta með vörn, heldur eingöngu með sókn.
Til þess að svo megi verða, þurfa bæði landsfeður og aðrir Íslendingar að lyfta ásjónu sinni úr holunni og líta upp í framtíðina. Við verðum að breyta og snúa flestum áherzlum í stjórnmálum og þurfum sennilega að skipta að verulegu leyti um pólitíska yfirstétt í landinu.
Framtíð okkar felst í þekkingaröflun í fjármálum, rekstri og nýjum atvinnugreinum; í þjálfun við hönnun hugbúnaðar og tækja; og í eflingu kjarks og bjartsýni.
Jónas Kristjánsson
DV