Sumar vörur eru ekki dýrari á Íslandi en í Bretlandi og Bandaríkjunum. Aðrar eru mun dýrari hér á landi en í nágrannaríkjunum tveimur. Þessi gömlu sannindi voru nýlega staðfest í rækilegri verðkönnun í Hagkaupi í Reykjavík, Safeway í London og Publix í Flórída.
Niðurstöður könnunarinnar, sem voru birtar í DV á laugardaginn, sýna, að tvöfalt dýrara er að lifa á Íslandi en í nágrannaríkjunum sunnan og vestan hafs. Vörur, sem kostuðu samtals 4136 krónur í Reykjavík, kostuðu 2293 krónur í London og 1722 krónur í Flórída.
Ef við gætum fundið leið til að lækka vöruverð á Íslandi niður að því, sem tíðkast utan Norðurlanda, mundum við bæta lífskjör hverrar fjölskyldu um tugi þúsunda króna á mánuði. Slíkt kæmi sér einkum vel á þessum síðustu og verstu tímum kjararýrnunar og atvinnuleysis.
Óhagstæð innkaup vegna fámennis þjóðarinnar eru þröskuldur í vegi slíkrar viðleitni. Af dæmum má þó sjá, að unnt er komast yfir þann þröskuld. Þannig eru ananassneiðar í dós, græn epli og ferskur ananas ódýrari hér á landi en í hinum suðlægari viðmiðunarlöndum.
Hreinlætisvörur eru heill vöruflokkur, sem er ódýr hér á landi. Engin skynsamleg ástæða er fyrir því, að sumir aðrir vöruflokkar skuli verða miklu dýrari og jafnvel margfalt dýrari hér á landi en í viðmiðunarlöndunum, svo sem leikföng, framköllun og gallabuxur.
Með tíðum, umfangsmiklum og skýrt fram settum verðkönnunum heima og erlendis gæti ríkið beitt óbeinum þrýstingi til verðlækkunar í innflutningsverzlun. Verðlagsstofnun gerði dálítið að því fyrir nokkrum árum, en hefur því miður látið deigan síga upp á síðkastið.
Við samanburðinn milli Íslands, London og Flórída sker í augu, að flestar vörur, sem sæta innflutningsbanni á Íslandi, eru tvöfalt eða margfalt dýrari hér en í viðmiðunarlöndunum. Verndun innlends landbúnaðar er meginskýringin á því, hversu dýrt er að lifa á Íslandi.
Hagfræðingar hafa áætlað herkostnað neytenda af innflutningsbanni búvöru og fengið út, að hann nemi um tólf milljörðum króna árlega. Þessi hrikalega upphæð er fyrir utan níu milljarða árlegan kostnað skattgreiðenda af styrkjum til landbúnaðar og niðurgreiðslum.
Við sjáum nú fram á mörg mögur ár vegna samdráttar í sjávarútvegi, sem hingað til hefur staðið undir velmegun þjóðarinnar. Verið er að skera niður velferðarkerfi heimilanna, spilla lífskjörum almennings og senda þúsundir manna út í varanlegt víti atvinnuleysis.
Ef ríkið hætti afskiptum sínum af landbúnaði, hætti innflutningsbanni, niðurgreiðslum og styrkjum, væri hægt að gera allt í senn, stöðva niðurskurð á velferð heimilanna, bæta lífskjör þjóðarinnar langt umfram það, sem bezt var áður, og leggja niður atvinnuleysið.
Gróði ríkis og skattgreiðenda annars vegar og neytenda hins vegar mundi endurspeglast í betri stöðu fyrirtækja, meiri veltu í þjóðfélaginu, meiri bjartsýni og stórhug athafnamanna. Þannig mundi atvinnuleysi hverfa og gjaldeyrir nást til kaupa á erlendri búvöru.
Afnám afskipta ríkisins af landbúnaði er hvorki sársaukalaust né ókeypis. Hitt liggur í augum uppi hverjum þeim, sem sjá vill, að þau vandræði yrðu hverfandi í samanburði við þau vandræði, sem leysast mundu í kjölfar afnáms þessara afskipta, er nema 21 milljarði á ári.
Þegar syrtir í álinn, er kominn tími fyrir þjóðina til að taka sönsum og leggja af þá sjálfseyðingarhvöt, sem felst í núverandi afskiptum ríkisins af landbúnaði.
Jónas Kristjánsson
DV