Grillið

Veitingar

Í stórum dráttum er Grillið á Hótel Sögu eins og það hefur alltaf verið, einn af fínustu og virðulegustu matstöðum landsins. Útlitið er að mestu óbreytt. Rauður litur er enn í hávegum hafður í stólum og teppi. Stjörnumerki í lofti og súlur virðast mér í upprunalegri mynd.

Til batnaðar eru breytingar, sem gerðar hafa verið. Ein borðaröð er á lægra gólfi við glugga og önnur borðaröð á hærra gólfi í miðju. Þetta skapar meira einkarými hvers borðs og veitir gott útsýni frá öllum borðum í salnum.

Þessi virðulegi og dýri matstaður heldur enn stöðu sinni sem bezti útsýnismatstaður borgarinnar. Því valda hinar víðáttumiklu rúður, sem sýna umhverfið í breiðtjaldsstíl, lítt truflaðar af grönnum gluggapóstum.

Grillið hefur gefizt upp í stríðinu um viðskiptahádegisverði. Staðurinn er einfaldlega lokaður í hádeginu eins og keppinauturinn Perlan. Þetta sýnist mér vera afleiðing af miklum samdrætti í risnu fyrirtækja. Jafnvel í Holti og Tjörninni, toppstöðum matargerðarlistar í borginni, er bara slæðingur af kaupsýslumönnum í hádeginu.

Verðlag staðarins hið sama og í Perlunni, um 3.700 krónur á þrjá rétti, að drykkjarföngum og nýja vaskinum frátöldum. Matreiðslan er nokkuð góð, en ekki fyrsta flokks, og þjónusta er vönduð, stundum í stífasta lagi.

Við sáum strax af smjörinu í skálunum, að bætt hafði verið í þær nýju smjöri ofan á eldra smjör, sem ekki var nákvæmlega eins á litinn. Þetta sparar vinnu, en er ekki í samræmi við verðlag, yfirbragð og stíl staðarins.

Volgar brauðkollur voru góðar og milli rétta var boðinn bragðfínt lime-krap. Grænmeti með aðalréttum var fullmikið staðlað, en hæfilega milt gufusoðið. Eins og oft vill verða á veitingastöðum af þessu upphafna tagi voru eftirréttirnir bezti hluti máltíðarinnar.

Fylltur smokkfiskur reyndist aðallega vera fiskikæfa, sem haldið var saman með þunnri og seigri smokkfiskrönd. Ofan á þessu voru heslihnetur og sterkkryddað grænmeti. Þetta leit vel út og braðaðist vel. Rauðvínssoðnir humarhalar voru meyrir og komu í smjördeigsbáti í blárri rauðvínssósu. Gljáður hörpuskelfiskur var bezti forrétturinn, þótt brokkál yfirgnæfði í bragði.

Grænmetisréttur dagsins var sæmilegur, aðallega kartöflur og blómkál í tómatsósu, með tvenns konar hrísgrjónum og lauksósu til hliðar. Hvítlauksstunginn skötuselur með steiktum kartöflum var góður. Rauðvínssoðnar smálúðurúllur með sveppum og hvítri og sítrónukryddaðri eggjasósu voru góðar. Pönnusteiktar lambalundir með koníakselduðum döðlum voru hins vegar gráar og þurrar, og döðlurnar áttu ekki mikið erindi.

Aprikósusulta var fínn eftirréttur með skemmtilegri salvíusósu og vanilluís. Kastaníuhella með eggjasósu reyndist vera gott súkkulaði með jarðarberja- og eggjasósum. Jógúrtís með sultuðum berjum var skemmtilega grófur, borinn fram með ferns konar berjum, jarðarberjum, bláberjum, blæjuberjum og hindberjum.

Grillið þjáist af hinu sama og ýmis gróin veitingahús, sem þóttu góð í upphafi ferilsins. Hlaupa þarf hratt til að standa í stað og það reynist mörgum erfitt. Grillið er sjálfsagt betra en nokkru sinni fyrr, en breytingarnar í veitingabransanum úti í bæ hafa bara verið enn hraðari..

Jónas Kristjánsson

DV