Bandaríkin réðust án dóms og laga á höfuðstöðvar leyniþjónustu Íraks fyrir viku. Árásin var sögð hefndaraðgerð vegna ósannaðrar aðildar og forustu leyniþjónustunnar að meintum undirbúningi að misheppnaðri tilraun til morðs á George Bush, fyrrum Bandaríkjaforseta.
Fullyrðingarnar um samsæri Íraka koma frá ótrúverðugum stofnunum, sem hafa áður hagrætt sannleikanum. Þær hafa gefið Bill Clinton Bandaríkjaforseta misheppnað tækifæri til að reyna að bæta vonda stöðu sína í skoðanakönnunum með því að leika stríðshetju á ódýran hátt.
Ástæða er til að hafa áhyggjur af þeirri uppgötvun bandarískra markaðsfræðinga, að bæta megi stöðu forseta í skoðanakönnunum með ómarkvissum hernaðaraðgerðum gegn vondum öflum úti í heimi. Röðin getur síðar komið að sjávarútvegsráðuneytum hvalveiðiþjóða.
Að vísu virðast Bandaríkjamenn ekki eins vitlausir og markaðsfræðingar forsetans halda, því að ekki tókst að lappa upp á fylgið með loftárásinni á Bagdað. Eftir stendur, að Bandaríkjamenn hafa valið sér enn einn forsetann, sem markaðssetur sig með hernaðaraðgerðum.
Fjölmennustu þjóðir Evrópu geta ekki státað af betri árangri í vali leiðtoga. Helmut Kohl, kanzlari Þýzkalands, leggur til dæmis lykkju á leið sína til að þurfa ekki að samhryggjast Tyrkjum og öðrum útlendingum, sem verða fyrir barðinu á krúnurökuðum nýnazistum.
Þetta gerir Kohl af því að markaðsfræðingar hans segja, að þýzkir útlendingavinir kjósi hvort sem er krata, en koma þurfi í veg fyrir, að öfgamenn í útlendingahatri safnist í sérstakan stjórnmálaflokk eða efli róttækan keppinaut gegn Kohl til forustu í hans eigin flokki.
Það lýsir Kohl vel, að ríkisstjórn hans hafði forustu um viðurkenningu nýrra ríkja á rústum Júgóslavíu, lét sér síðan nægja að styðja fasistastjórn Tudjmans í Króatíu gegn afleiðingum þessarar sömu viðurkenningar, en leyfði íslömum í Bosníu hins vegar að sigla sinn sjó.
Að vísu má segja Kohl það til hróss, að hann hefur viljað létta vopnasölubanni af Bosníumönnum, svo að þeir geti frekar varizt serbneskum villilýð, en hefur ekki fengið það fyrir tveimur þjóðarleiðtogum, sem eru ekki síður ömurlegir, Francois Mitterrand og John Major.
Frakkar hafa valið sem forseta persónugerving franskra stjórnmála eftirstríðsáranna, Mitterrand, sem er í sífelldri leit að ódýru valdatafli. Frægust var sýndarmennskan, þegar hann fór í snögga ferð til Sarajevo til að slá sér upp á kostnað annarra vestrænna leiðtoga.
Munurinn á Mitterrand og Major er einkum sá, að hinn fyrri er rotinn í gegn, en hinn síðari er tómur í gegn. Forsætisráðherra Bretlands er gerólíkur forvera sínum, hefur enga mælanlega kjölfestu í grundvallarsjónarmiðum og hagar seglum eftir sérhverjum andvara.
Frakkar og Bretar hafa snúið baki við þessum leiðtogum sínum eins og Bandaríkjamenn hafa misst trú á sínum leiðtoga. Þetta bendir til, að hin pólitíska markaðssetning á Vesturlöndum sé á villigötum og að fólk vilji raunverulega leiðtoga á borð við Margaret Thatcher.
Þetta þýðir einnig, að hæfileikar, sem duga mönnum vel til að brjótast til valda í flokksapparati og að vinna sigur í örfáum kosningum, eru ekki þeir hæfileikar, sem gera menn að þjóðarleiðtogum. Þetta getur bent til, að brotalöm sé í aðferðafræði vestræns leiðtogavals.
Afleiðing þessa er, að fjölmennustu þjóðir Vesturlanda eru í rauninni leiðtogalausar um þessar mundir og að Vesturlönd eru sem heild að sama skapi leiðtogalaus.
Jónas Kristjánsson
DV