Holur hvalveiðihljómur

Greinar

Holur hljómur er í yfirlýsingum sjávarútvegsráðherra og annarra hvalveiðisinna um, að veiðar verði hafnar að nýju, þótt það verði ekki á þessu ári. Þeir geta ekki svarað einföldum spurningum, til dæmis spurningu forsætisráðherra um, hver eigi að kaupa hvalkjötið.

Auðvitað er þungbært að telja sig hafa unnið málefnalegan sigur í fræðilegri deilu, en fá samt sem áður ekki tækifæri til að fylgja sigrinum eftir í raun. Auðvitað er þungbært að láta Bandaríkjamenn og aðra útlendinga segja sér fyrir verkum á þessu sviði sem öðrum.

Talsmenn okkar í máli þessu virðast alltaf hafa ímyndað sér, að það snerist um vísindi og rök. Okkar menn hafa haft mikið fyrir því að sýna fram á, að hvalveiðistofnar við Ísland séu ekki í útrýmingarhættu og þess vegna megi hefja varfærnislegar veiðar úr stofnunum.

Málið snerist hins vegar alltaf um tilfinningar. Enda sneru Bandaríkjamenn við blaðinu, þegar hvalveiðisinnar höfðu unnið málefnalegan sigur, og sögðust nú vera andvígir hvalveiðum af því að hvalir væru svo fallegir og merkilegir, en ekki vegna útrýmingarhættu einnar.

Vestanhafs býr kjötætuþjóð, sem hakkar í sig kjöt af fallegum kálfum og lömbum, kjúklingum og grísum, en hefur á sama tíma gert hvalinn heilagan á sama hátt og indverskir bramatrúarmenn hafa kúna. Bandaríkjamenn taka hvali í fóstur og umturnast gegn hvalveiðum.

Ekki bætir úr skák, að Bandaríkjamenn eru fremur ofbeldishneigðir í viðskiptum við útlend ríki. Þeir eru sífellt að hóta viðskiptaþvingunum og framkvæma þær. Þrýstihópar á borð við hvalfriðunarmenn eiga greiðan aðgang að opinberum stofnunum viðskiptaþvingana.

Við höfum engin loforð í höndum frá Japönum um, að þeir muni kaupa af okkur afurðir hvalveiða. Ef þau loforð yrðu gefin, væru þau marklaus, því að Bandaríkjamenn mundu beita þá viðskiptalegum þvingunum til að falla frá þeim. Sama gildir um aðra viðskiptavini.

Tómt mál er að tala um að taka upp hvalveiðar í ábataskyni. Við fáum enga útlenda kaupendur að hvalaafurðum og við missum fjölda kaupenda á öðrum sviðum, einkum í útflutningi fiskafurða. Hvalveiðar mundu einar sér framkalla meiri kreppu en þá, sem við búum nú við.

Við höfum næg vandræði af núverandi kreppu, þótt við bætum ekki annarri ofan á. Við höfum nóg af sviðum til að efla hugsjónir okkar og sjálfstæðisvitund, þótt við séum ekki að lemja haus við stein á þessu afmarkaða sviði, sem hefur alls ekkert fjárhagslegt gildi.

Því miður er íslenzka þjóðin ekki þessarar skoðunar. Hún getur ekki sætt sig við, að ruglað og ofbeldishneigt fólk í Bandaríkjunum ráði ferðinni í þessu máli. Hún getur ekki sætt sig við, að talsmenn heilagra hvala ráði ferð Íslendinga. Hún vill fremja fjárhagslegt harakiri.

Farsælla væri fyrir fámenna þjóð á borð við Íslendinga að velja sér hugsjónir við hæfi og reyna að haga seglum eftir vindi á þann hátt, að sem greiðastur aðgangur sé fyrir afurðir sínar á erlendan markað. Það þýðir, að við verðum stundum að taka tillit til útlendinga.

Mikilli vinnu og peningum hefur verið varið í þá ímyndun, að hvalur sé á sviði rökhyggju og vísinda. Árum saman stóðum við fyrir svokölluðum vísindaveiðum, þótt við tímum ekki að styðja önnur vísindi. Við gengum úr alþjóða hvalveiðiráðinu og stofnuðum annað.

Engri vinnu eða peningum hefur verið varið til að finna, hver eigi að kaupa hvalkjötið og hvernig við eigum að verja aðra markaði okkar fyrir viðskiptaþvingunum.

Jónas Kristjánsson

DV