Dýrkeypt reynsla

Greinar

Ráðstöfunartekjur almennings eru að skerðast um samtals fjórðung á sjö ára tímabili, frá 1987 til 1994. Þetta er gífurleg kjaraskerðing á skömmum tíma. Hún sýnir, að þjóðin er fær um að haga seglum eftir efnahagsvindum og getur hert sultarólina, þegar árar sem verst.

Fjórðungs minnkun ráðstöfunartekna segir ekki alla söguna um skerðingu lífskjara almennings. Í öðru lagi er ríkið samhliða að draga úr þjónustu sinni, skera af velferðarkerfi heimilanna. Og í þriðja lagi er allt í einu komið víðtækt atvinnuleysi með öllum þess hörmungum.

Tvennt hefur meðal annars einkennt þetta tímabil. Það er í fyrsta lagi stöðugt verðlag og í öðru lagi þjóðarsáttir á vinnumarkaði. Svo virðist sem almenningur hafi tapað á stöðugu verðlagi og þjóðarsáttum, þótt fleira skipti auðvitað máli, svo sem samdráttur í þorskafla.

Skiljanlegt er, að órói fari að grípa um sig hjá verkalýðsrekendum, þegar félagsmenn þeirra eru farnir að sjá samhengi milli þjóðarsátta og hruns ráðstöfunartekna. Þessa hefur fyrst orðið vart hjá Dagsbrún og nokkrum öðrum verkamannafélögum, en á eftir að magnast ört.

Fólk mun smám saman missa trú á gildi þess að haga sér í samræmi við útlendar hagfræðiformúlur um stöðugt verðlag, þegar það tapar svona greinilega á þeirri fylgispekt. Fátæka fólkið í landinu fer senn að hugsa með angurværð til blessaðra verðbólguáranna.

Hætt er við, að höfundum þjóðarsátta í hagsmunasamtökum vinnumarkaðarins muni reynast erfitt að skýra fyrir fólki, hvers vegna það eigi að taka þátt í þjóðarsáttum, sem skerða ráðstöfunartekjur þess um heilan fjórðung á sjö ára tímabili, og hvernig það muni síðar græða.

Ekkert bendir til þess, að hagfræðingar vinnumarkaðarins eða ríkisstjórnarinnar séu með haldbær rök um framhaldið. Á vegum ríkisstjórnarinnar verður haldið áfram að reyna að skera niður velferðarkerfi heimilanna og spilla þannig lífskjörum enn frekar.

Áfram verður haldið að veiða nokkru meiri þorsk en ráðlegt er, svo að ekki koma neinir stórir þorskárgangar í aflann á næstu árum. Höfundar þjóðarsáttar geta því ekki boðið upp á neina ódáinsakra að baki fjallgarðanna, sem þeir eru að leiða þjóðina um á þessum mögru árum.

Samstaða er um það milli stjórnmálamanna þjóðarinnar, forvígismanna atvinnurekenda og verkalýðsrekenda, svo og hagfræðilegra ráðgjafa allra þessara aðila, að ekki skuli létt byrðum af almenningi með því að skera niður velferðarkerfi fornra atvinnuhátta, einkum landbúnaðar.

Uppreisnarmenn Dagsbrúnar taka þátt í þessari samstöðu. Þótt þeir kveini yfir þjóðarsáttum og kjaraskerðingu, hafa þeir ekki annað að bjóða en allir hinir. Þeir trúa á sömu bannhelgi. Þeir eru sömu kerfiskarlarnir. Munurinn er bara sá, að ráðamenn Dagsbrúnar eru í fýlu.

Þótt stefna þjóðarsátta og stöðugs verðlags sé í vondum málum um þessar mundir, er ekkert, sem bendir til, að vinnudeilur á næsta vetri muni bæta stöðu Dagsbrúnarmanna eða almennings. Fyrirtækin eru ekki aflögufær og bannhelgi hvílir á velferðarkerfi fornra atvinnuhátta.

Meðan þjóðin neitar sér um raunhæfar leiðir út úr ógöngum sínum, getur hún huggað sig við, að lífskjörin eru ekki verri en þau voru fyrir áratug. Kreppan felur í sér, að ráðstöfunartekjur falla niður í það, sem þær voru fyrir áratug. Einn áratugur hefur farið í súginn.

Þjóðin er á uppleið, þegar litið er til langs tíma og hugsað í áratugum. Hún hefur valið sér erfiða fjallvegi. Hún mun læra af reynslunni. En það er dýrkeypt reynsla.

Jónas Kristjánsson

DV