Primavera

Veitingar

Primavera er glæsilegur veitingastaður með miðlungsverði á fremur góðum mat, en fremur illa í sveit settur í kreppunni. Hús verzlunarinnar við Kringluna er dautt á kvöldin og kaupsýslumenn og aðrir risnumenn landsins virðast að mestu hættir að hittast í hádegismat.

Á ýmsu hefur gengið í veitingarekstri á efri jarðhæð Húss verzlunarinnar. Nú er komið bankamötuneyti í húsnæði, þar sem áður var ódýr veitingastofa með sjálfsafgreiðslu. Það er auðvitað í stíl við ótakmörkuð fjárráð peningastofnana og þá stefnu stjórnvalda, að þjóðin skuli borða í vondum mötuneytum eða á öðrum þeim stöðum, sem ekki eru á hinum frjálsa og skattlagða markaði, svo sem í Rúgbrauðsgerðinni eða í félagsheimilum.

Fíni salurinn að baki bankamötuneytisins er enn starfræktur á hinum frjálsa markaði og hefur nýlega skipt um nafn og áherzlur. Hann er orðinn hálfítalskur og hefur pöstur á boðstólum. Hann hefur stokkið upp í tízkuvagninn. Árið 1993 er ítalska árið í veitingarekstrinum.

Primavera er smart. Afstrakt málverk eru á veggjum og eitt utangátta póstkortamálverk af eyjunni San Giorgio í Feneyjum. Viðarveggir eru í gulbrúnum slökunarlit. Falleg glerkúluljós hanga í lofti. Loftið er í smáum reitum og gluggar í stórum reitum. Svipmótið er skandinavískt. Ítalskir matstaðir eru ekki svona mikið hannaðir.

Primavera er þægilegt, þótt tónlistin sé stundum of hátt stillt. Armstólar gesta eru bólstraðir, fjaðra vel og eru þægilegir. Borð eru fallega dúkuð og eru meira að segja með tauþurrkum, þótt súpa og réttur hádegisins kosti ekki nema 990 krónur. Af matseðli kosta þríréttuð máltíð um 2555 krónur fyrir utan drykkjarföng.

Tómatbætt sjávarréttasúpa var fínasta súpa, full af humar og hörpufiski. Sveppahattar voru fallega settir á disk, snarpheitir og góðir, ótæpilega hvítlauksfylltir, með vægri Madeira-sósu. Hvítlauksristaðir sniglar og hörpufiskar voru stórir og meyrir og góðir, með mildri steinseljusósu með hvítlauksbragði. Gott var einnig hrátt nautakjöt í olífuolíu að ítölskum hætti, Carpaccio. Tær lauksúpa dagsins var fremur góð af tómatsúpuætt.

Ravioli hafði að geyma saxaðan humar, estragon- kryddaðan, og var fremur góður réttur. Svipað er að segja um spaghetti með kjötbollum. Pastaréttir hafa mér þó reynzt betri á öðrum ítölskum matstöðum í borginni.

Kryddlegnar gellur með rjóma og sesamfræjum voru mjúkar og góðar, vel kryddaðar, en nokkuð yfirgnæfðar af sesamfræjunum. Heilsteiktur urriði dagsins var fremur þurr og einnig bragðdaufur, eins og oft vill verða með urriða, borinn fram með hvítum kartöflum og smjöri. Mun betri var steikt rauðspretta með sítrónu og hæfilegu magni af grana-osti, borinn fram með pönnusteiktum kartöflum. Kálfasteik með villisveppasósu var sæmileg, með gamaldags og hlutlausri sósu brúnaðri.

Eftir lægð í aðalréttum komu betri eftirréttir. Fyllt pönnukaka var þunn og góð, með líkjörkrydduðum rjóma. Kaka hússins reyndist vera súkkulaðibúðingur með ís, hinn bezti eftirréttur. Heldur lakari var tiramisu, sem líktist ekki mikið einkennisrétti Feneyinga og var eins konar lagkaka með fremur litlu ostabragði. Kaffi var gott, auðvitað ítalskt, espresso og cappucino.

Jónas Kristjánsson

DV