Pisa

Veitingar

Á Pisu er ég kominn í laufskála frá Túskaníu, sem hefur verið komið fyrir innan í skíðaskála frá Týról. Þung furan í súlum og bitum lokar pergólustílinn inni, svo að úr verður léttgeggjað rugl, sem er þröngt og indælt í senn.

Bezt er að sitja í aðalsalnum, sem gefur dálítið rými, en síður í rangalanum meðfram húsasundinu, þar sem innilokunartilfinningin er sú, að setið sé í þröngum búðarglugga við mannlaust götusund í erlendu skuggahverfi.

Pisa er vinsæll staður, sem hefur bæði fastagesti og erlenda ferðamenn að viðskiptavinum. Fólk situr þröngt í básum innan um margvíslegt kraðak af skrauti og útflúri. Pisa hefur greinilega andrúmsloft, sem laðar að.

Sumt hefur batnað, einkum þjónustan, sem nú er skjót og formálalaus að ítölskum hætti. Þá hefur verðið batnað, einkum í hádeginu. Kominn er sérstakur hádegisseðill, sem er stytt og verðlækkuð útgáfa af kvöldseðlinum.

Í hádeginu er boðin súpa og fiskréttur dagsins á 790 krónur, sem er gott verð. Þá er meðalverð þriggja rétta af seðlinum um 2060 krónur, en á kvöldin er það um 3120 krónur, sem er í hærri kanti Ítalíustaða bæjarins.

Matreiðslan hefur slaknað í kjölfar mikils blómaskeiðs, sem var fyrir einu ári eða tveimur. Hún stenzt tæpast samanburð við þá staði, sem beztan mat bjóða ítalskan, þótt hún sé frambærileg út af fyrir sig.

Góðar brauðkollur með smjöri eru staðarsómi og sömuleiðis gulrótarlengjur, sem á kvöldin þjóna hlutverki lystaukans. Súpa dagsins í hádeginu var fremur bragðdauf og hrikalega þykk lauksúpa. Saffrankrydduð sjávarréttasúpa með miklu grænmeti var hins vegar mjög góð.

Fylltir sveppahattar með sniglum, hvítlauk, basilikum og grana-osti lágu á stórum salatbeði, sem bjó einkum yfir jöklasalati, og höfðu ristað brauð í för með sér, ágætur réttur. Salat Sesars var sama jöklasalatið með ristuðum brauðbitum og ansjósusósu til hliðar. Þunnsneidd nautalund hrá var borin fram með möndlum í sítrónusafa og olífuolíu, fyrirmyndar réttur og eitt af aðalsmerkjum ítalskrar matargerðar. Minna var varið í djúpsteikta smokkfiskhringi í of miklum steikarhjúp á jöklasalati.

Spaghetti úr heilhveiti með grænmeti í basilikum-sósu var hollustulegt og gott, en illa upp sett. Pastasalat með rækjum, eplum og túnfiski var frísklegt og gott og fallega upp sett, kjörinn hádegisverður, borinn fram með góðri pizzu-sneið. Risotto með blönduðum sjávarréttum var einkar bragðmilt og gott, hrísgrjónin sérstaklega vel elduð. Pizzur eru góðar og stórar, um 980 krónur stykkið.

Lúða dagsins lá á beði úr góðu ræmupasta með mildri gráðaostsósu, blandaðri papriku og blaðlauk, ljómandi vel elduð. Lengri og lakari var eldunin á skötusel, sem lá á fiðrildapasta með afar sterkri pastasósu og var í för með heilum rækjum, sem pössuðu ekki kramið, af því að erfitt er að nota puttana, þegar rétturinn flýtur í sósu.

Lítið ostbragð var að ostatertu. Ofnbökuð pera með ís, og sykurbrúnuðum möndlum var sæmileg. Möndluís hússins var góður, með heilum möndlubitum, borinn fram í fallegum kexbikar með volgri karamellusósu.

Kaffið var gott, ekki þetta venjulega sull úr nýtízkulegum og hnappastýrðum veitingavélum, heldur úr ekta ítalskri kaffivél og gaf meira högg en snafs hefði gert.

Jónas Kristjánsson

DV