Rosafjör

Greinar

Af ummælum þátttakenda má ráða, að rosafjör hafi verið um verzlunarmannahelgina og af ummælum mótshaldara má ráða, að samkomur hafi farið vel fram. Yfir 20 manns urðu fyrir alvarlegum líkamsárásum um þessa helgi rosafjörs og bera sumir varanlegan skaða.

Sparkað var í höfuð liggjandi fólks. Það var slegið í andlit með brotnum flöskum. Stungið var með hnífum í handleggi og bök. Nokkur nef lágu úti á vanga eftir barsmíðar. Jafnan voru að verki dauðadrukknir menn, sem höfðu afklæðst persónuleikanum í rosafjöri helgarinnar.

Mörg hundruð manns eyddu helginni að mestu leyti í óminni áfengisdauðans og geta ekki rifjað upp neitt af því, sem gerðist um helgina. Fólk dó snemma áfengisdauða og vaknaði til lífsins til að drekka og deyja síðan aftur. Þessi atburðarás fór nokkra hringi hjá mörgum.

Sjálfsblekkingin er á svo háu stigi, að jafnvel þeir, sem þannig sáu hvorki daginn né nóttina, eru sannfærðir um, að rosalegt fjör hafi verið hjá sér um helgina. Sjálfsblekkingin er á svo háu stigi, að timburmenn og önnur þjáning verzlunarmannahelgarinnar gleymist smám saman.

Ef frá eru taldir þeir, sem sváfu áfengisdauða eða stunduðu grófar misþyrmingar á öðru fólki, virðist mikill meirihluti rosafjörsins hafa falizt í að slangra um á óstyrkum fótum og muldra, orga og veina illskiljanlega í líkingu við sjúklinga á geðveikrahælum fyrri alda.

Auðvitað geta drykkjusamkomur verzlunarmannahelgarinnar ekki flokkazt á annan hátt en sem sjálfspyndingar sjálfsblekktra. Það gildir einnig um hina, sem láta sér líka að ráfa lítt eða ekki drukknir um hin skipulögðu svæði rosafjörs og horfa á alla eymdina og volæðið.

Sumir virðast telja sér trú um, að skemmtun felist í að vera innan um drukkið fólk. Aðrir virðast telja sér trú um, að skemmtun felist í að missa stjórn á líkama og sál, afklæðast persónuleikanum, ráfa um óvistlegar grundir og reka upp undarleg hljóð af ýmsu tagi.

Nýjasta verzlunarmannahelgin er enn ein staðfesting þess, að áfengi og önnur eiturefni fara almennt illa í þjóðina. Íslendingar reyna lítt eða ekki að halda haus og valdi á hreyfingum sínum eins og tíðkast í útlöndum, heldur steypa sér á bólakaf í persónuafskræminguna.

Íslendingar eru að því leyti ekki enn orðnir að siðaðri þjóð að vestrænum hætti, að hér vantar almenningsálit, sem lítur niður á draf og slangur, org og ælu, skemmdarverk og barsmíðar, svo og aðra fylgifiska ótæpilegrar notkunar áfengis og annars eiturs á skömmum tíma.

Við lifum því miður í brennivínsþjóðfélagi. Háir og lágir, ungir og gamlir nota áfengi meira en góðu hófi gegnir. Hinir lágu læra af hinum háu og hinir ungu læra af hinum gömlu. Yfir öllu þessu hvílir svartaþoka sjálfsblekkingarinnar um lífslystina og rosafjörið.

Óralangur vegur er frá vínguðum Miðjarðarhafs og heimsbókmennta til timbraðra drykkjurúta norðurhjarans á Íslandi. Hér hafa hin viðurkenndu mörk áfengisneyzlu verið sett einhvers staðar úti í mýri, með tilsvarandi firringu, þjáningu og drykkjusýki þúsundanna.

Tímabært er, að Íslendingar létti af sér oki sjálfsblekkingarinnar og horfist í augu við raunveruleika hins svokallaða rosafjörs. Veruleikinn er sá, að mestur hluti sálrænna, félagslegra og fjárhagslegra vandamála fólks stafar beinlínis af notkun áfengis, lyfja og annars eiturs.

Sjálfsblekkingu þarf til að borga verð utanlandsferðar til að fá að afklæðast persónuleikanum eða taka annan þátt í hópþjáningu á borð við verzlunarmannahelgi.

Jónas Kristjánsson

DV