Siam

Veitingar

Siam við Skólavörðustíg er notaleg og róleg kvöldverðarstofa, rekin á þann góða hátt, að húsbóndinn er í eldhúsi og húsfreyjan í matsal. Matreiðslan er raunverulega thailenzk og þjónustan er íslenzk og kunnáttusamleg. Verð er í meðallagi, ríflega 2.100 krónur á mann að meðaltali.

Þetta er hreinn og snyrtilegur staður, ekki ofhlaðinn thailenzkum minjagripum. Einkennismerki hans eru stór, útskornin og gegnumskorin þil fyrir glugga og milli borða. Í einu horninu eru gólfsessur, þar sem limaliprir geta æft borðhald með kroslagða fætur að austrænum sið.

Thailand er gamalt menningarríki, sem hélt sjálfstæði sínu, þótt nágrannalöndin yrðu nýlendur. Landið hefur lengst af verið friðarparadís á annars blóði drifnum skaga, þar sem einnig eru ríkin Kambodsja, Víetnam, Laos og Burma. Sjálfstæðið hefur meðal annars haft í för með sér, að evrópsk áhrif eru lítil í matargerðarlist.

Thailenzka matreiðslu má staðsetja einhvers staðar mitt á milli indverskrar og suður-kínverskrar. Sumir réttir eru mildir að suður-kínverskum hætti, en aðrir eru sterkir að indverskum hætti. Kryddtegundir eru að sumu leyti sérstakar fyrir Thailand, en ýmsar tegundir af karrí eru þó mikið notaðar að indverskum hætti.

Soðin hrísgrjón og hrásalat fylgja aðalréttum staðarins, sem eru bornir á borð á fötum, svo að gestir geta pantað mismunandi rétti og smakkað á þeim öllum. Aðalréttir eru grænmetisréttir, fiskréttir og kjötréttir. Þeir eru yfirleitt á borðstólum í ferns konar karríi missterku, frá gulu yfir í rautt og grænt, svo og í massman- karríi. Fiskréttir eru þar að auki til í súrsætri sósu. Margir réttir eru með þurrkuðu kaprov og horafa laufi.

Tom Yam súpa er einn af einkennisréttum Thailands, venjulega sítrónu- eða lime-krydduð og bætt með thailenzkum risarækjum áður en hún er borin á borð. Á Siam var þetta tær súpa úr kjötkrafti, fremur sterk og mjög góð. Súrsæt súpa var öðru vísi en þær kínversku, bragðsterkari og fyllt ýmsu sjávarfangi, afar góð súpa.

Djúpsteiktar rækjur með súrsætri chilisósu voru steiktar í bunkum í fullmiklum steikarhjúp, en eigi að síður góðar. Humar í kókosmjólk og thailenzkum engifer var meyr, en ekki allur nógu ferskur. Humarréttur með kaprov laufi var góður og mildur. Steikt hrísgrjón með góðu krabbakjöti og miklu grænmeti voru til fyrirmyndar. Sama var að segja um steikt hrísgrjón með rækjum.

Lambakjöt í massmankarríi með hnetum var afar sterkt og meyrt, og hneturnar hæfðu kjötinu vel. Lambakjöt í grænu karríi var hins vegar bara sterkt, en ekki sérlega gott, enda of mikið eldað. Kjúklingur með sterkum pipar og engifer var fremur þurr og ekki eins bragðsterkur og búast mátti við. Thailenzk eggjakaka með kjöti og grænmeti var óvenjulega létt í sér og góð á bragðið, ólík hinum þungmeltu eggjakökum, sem tíðkast hér.

Þótt Siam sé góð matstofa, sakna ég glæsilegrar framsetningar rétta, sem einkennir mörg thailenzk veitingahús. Ég sakna þekktra thailenzkra rétta, svo sem plokkfisks og kjötbolla, sem aðalréttar og út í súpur. Mér finnst líka, að tilvalið væri að taka íslenzkan fisk og matreiða að thailenzkum hætti. En slíkur skortur á dirfzku einkennir raunar alla austræna matstaði borgarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV