Myllusteinninn þungi

Greinar

Ríkisstjórnin þarf að fara að sinna fjármálum ríkisins í alvöru. Það getur ekki gengið fram eftir öllu kjörtímabilinu, að stærsti þáttur þjóðarbúskaparins og mesti örlagavaldur í hagstjórninni fái að leika lausum hala með þeim afleiðingum, að áætlanir fari sífellt úr böndum.

Á miðju ári stendur ríkisstjórnin frammi fyrir þeirri staðreynd, að hallinn á fjárlögum ársins 1993 hefur við upphaf árs verið vanmetinn um sex til sjö milljarða króna. Tekjur hafa reynzt minni en ráð var fyrir gert og útgjöld hafa reynzt meiri en ráð var fyrir gert.

Ríkisstjórnir og hagfræðingar þeirra eiga oft erfitt með að sjá óbeinar afleiðingar gerða sinna marga liði fram í tímann. Það er einn helzt galli ofanstýringar, að hún framkallar vítahring, er leiðir til aðstæðna, sem eru allt aðrar en þær, er landsfeður ráðgerðu í upphafi.

Í þessu tilviki er alls ekki um óbein langtímaáhrif að ræða. Fjármálaóreiða ríkisins er bein og augljós skammtímaafleiðing af því tagi, sem hver húsmóðir getur séð fyrir í fjármálum heimilisins, þótt ráðherrum og hagfræðingum þeirra hafi ekki tekizt að sjá hana fyrir.

Þegar ríkisstjórn vinnur markvisst að minni kaupmætti fólks, fær ríkissjóður að sjálfsögðu minni skatta af tekjum fólks. Þegar þetta sama fólk mætir minnkandi kaupmætti sínum með minni innkaupum, fær ríkissjóður að sjálfsögðu minni skatta af veltu fólks.

Þetta samhengi er svo augljóst, að hvert barn getur séð það. Í ofanstýringu efnahagsmála er oft við að glíma miklu flóknari atburðarás, þar sem hinar óbeinu afleiðingar liggja engan veginn í augum uppi. Einföld er hins vegar atburðarásin, sem ríkisstjórnin sá ekki fyrir.

Þegar ríkisstjórn vinnur markvisst að þjóðarsátt um að halda verðbólgu í skefjum, þarf ríkissjóður að taka þátt í þjóðarsáttinni með framlagi í félagsmálapakka eða verkefnapakka. Þessir pakkar ríkissjóðs eru náttúrulögmál, sem við höfum séð í hverri einustu þjóðarsátt.

Pakkarnir kosta ríkið peninga, sem gera þarf ráð fyrir á fjárlögum. Það hefur ríkissjórnin hins vegar ekki gert. Hún hefur verið blind á hvort tveggja í senn, tekjumissinn af völdum þjóðarsáttarinnar, sem fyrirhuguð var, og útgjaldaukann af völdum sömu þjóðarsáttar.

Ríkisstjórn, sem skilur ekki efnahagsmál eða vill ekki skilja þau, lendir í fleiri vandræðum. Fjármálaóreiða ríkisins stuðlar einnig að háum raunvöxtum í þjóðfélaginu og kemur í veg fyrir, að tilraunir til lækkunar vaxta nái fram að ganga. Þetta ætti öllum að vera ljóst.

Ríkisstjórn, sem skilur ekki efnahagsmál eða vill ekki skilja þau, lendir líka í þeim vanda að búa til gengislækkun í gamla stílnum, þar sem öll gengislækkunin fer út í verðlagið og menn sitja eftir með verðbólguna eina, án þess að geta nýtt hefðbundna kosti verðbólgunnar.

Ríkisstjórnin hefur hegðað sér undarlega á fleiri sviðum efnahagsmála. Með annarri hendinni sker hún niður velferðarkerfið í fjárlögum og bætir síðan við það í þjóðarsátt. Með annarri hendinni sker hún niður framkvæmdir í fjárlögum og bætir síðan við þær í þjóðarsátt.

Utan ríkisstjórnar og hagfræðinga hennar sjá allir, sem sjá vilja, lærðir og leikir, að hún hefur lent í ógöngum í miklum og vaxandi ríkishalla, í of háum vöxtum, í gengislækkun án umtalsverðra hliðarráðstafana og í “inn og út um gluggann” misræmi fjárlaga og þjóðarsátta.

Ríkisfjármálin eru í þungamiðju þessara vandræða ríkisstjórnarinnar. Svo virðist sem þau verði þyngsti myllusteinninn um háls hennar í næstu kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV