Stríðsglæpamaður kemur

Greinar

Einn af kunnari stríðsglæpamönnum heims kemur í opinbera heimsókn til Íslands síðar í þessum mánuði. Það er Símon Peres, utanríkisráðherra Ísraels, áður hermála- og forsætisráðherra. Hann á langan afbrotaferil að baki og hefur heldur færzt í aukana á síðustu vikum.

Afbrot Peresar stríða gegn alþjóðlegum sáttmálum um meðferð stríðsfanga og um meðferð fólks á hernumdum svæðum, þar á meðal gegn Genfarsáttmálanum. Þau stríða gegn grundvallarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og gegn langri lagahefð Vesturlanda í þjóðarétti.

Mesta athygli hafa vakið barnamorðin, sem Peres og félagar stjórna í Palestínu. Börn, sem kasta grjóti, hafa verið drepin í tugatali á hverju ári. Þetta þekkist hvergi annars staðar í heiminum. Blóð allra þessara barna er á höndum Peresar, þegar hann heilsar forseta Íslands.

Barnamorð og önnur morð, sem Peres og félagar stunda á hernumdum svæðum, flokkast í alþjóðarétti undir manndráp af ásettu ráði. Einnig eru til nákvæmar skráningar um pyntingar, sem þeir standa fyrir og eru bannaðar með alþjóðlegum sáttmálum og lagahefðum.

Ýmsar refsiaðgerðir Peresar eru líka brot á þessum sáttmálum og hefðum. Þar á meðal eru hefndaraðgerðir á borð við að jafna hús fólks við jörð og að koma í veg fyrir, að það geti unnið fyrir sér. Slíka glæpi stundaði Peres í hundraða- og þúsundatali sem hermálaráðherra.

Upp á síðkastið hafa Peres og félagar lært þjóðahreinsun af Milosevic Serbíuforseta og Karadzic, Bosníustjóra hans. Peres og félagar þjóðahreinsuðu með því að láta gera umfangsmiklar loftárásir á bæi og þorp í Suður- Líbanon og hrekja íbúana á þann hátt norður í land.

Yfirlýstur tilgangur loftárása Peresar og félaga var að hreinsa belti í Suður-Líbanon, svo að meintir óvinir Ísraels, sem þar kynnu að vera, hefðu minna skjól af óbreyttum borgurum. Síðar var raunar neitað, að þetta væri tilgangurinn, þegar heimsbyggðin mótmælti honum.

Á þennan hátt létu Peres og félagar eyða heimilum tugþúsunda óbreyttra borgara í öðru ríki og hrekja þá burt af föðurleifð sinni. Hann hefur langa reynslu á þessu sviði, því að fyrir átta árum lét hann gera loftárás á íbúðahverfi í Túnis, sem er um 2500 kílómetra frá Ísrael.

Glæpasaga Peresar nær yfir fleiri svið en hér er rúm til að rekja. Fyrir sjö árum lét hann menn sína óvirða fullveldi Ítalíu með því að ræna þar ísraelskum kjarnorkufræðingi, sem hafði veitt Sunday Times í London upplýsingar um framleiðslu kjarnavopna í Ísrael.

Símon Peres er ekki skárri en aðrir, sem hafa gegnt störfum hermálaráðherra, utanríkisráðherra og forsætisráðherra Ísraels á síðasta áratug. Hans afbrot spanna alla bókina frá þjóðahreinsun og skipulegum manndrápum yfir í löglausan brottrekstur, varðhald og mannrán.

Þótt borgarar Ísraels beri sem heild ábyrgð á hryðjuverka- og stríðsglæpastefnu ríkisins vegna stuðnings við hana, svo sem fram kemur í skoðanakönnunum, hafa helztu valdamenn þjóðfélagsins þó skorið sig úr í viðleitni við að auka grimmd þessa krumpaða þjóðfélags.

Hryðjuverka- og stríðsglæpamaður af stærðargráðu Peresar á ekkert erindi til Íslands, þótt sérkennilega gamansamur utanríkisráðherra okkar hafi gaman að prófa, hvað hann geti komizt langt í að ögra fólki. Vonandi láta kjósendur hann gjalda þess í næstu kosningum.

Þeir, sem heilsa Símoni Peres í opinberri heimsókn hans til Íslands, fá blóð saklausra á hendur sínar. Í sögulegum skilningi geta menn aldrei þvegið blóðið af sér.

Jónas Kristjánsson

DV