Laugaás

Veitingar

Ef ég kemst ekki í bæinn á réttum matartíma eða nenni ekki að elda, fer ég í gamla Laugaás við Laugarásveg. Það er ódýrasta stjarnan á matargerðarhimni Reykjavíkur og hefur verið það í fjórtán ár. Hún ljómar næstum eins skært á þessu sumri og hún gerði á sínu fyrsta sumri.

Þegar ég byrjaði að skrifa um veitingahús árið 1980, var Laugaás bylting í veitingarekstri. Loksins var kominn staður, sem sameinaði ódýran mat fyrir hversdagslegt borðhald og nútímaleg gæði í eldamennsku, er bezt lýstu sér í varfærinni matreiðslu á sjávarfangi.

Eigendum staðarins hefur gengið fremur vel á þessum tíma. Þeir hafa opnað stærra, glæsilegra, heldur betra og heldur dýrara útibú á Hótel Esju. Þeir eru samt ekki í neinum forstjóraleik, heldur standa enn við eldavélarnar á báðum stöðum eins og þeir hafa gert frá upphafi.

Auðvitað er ánægjulegt að sjá dæmi um festu og úthald í atvinnulífi landsins, sem einkennist því miður af skammtímarokum. Dapurlega hliðin á málinu er, að ekki hefur orðið sú þróun í veitingabransanum, að Laugaási hafi verið veitt marktæk samkeppni í fjórtán ár.

Gamli Laugaás er fersk og hrein og björt matstofa enn þann dag í dag. Rauðköflótti stíllinn hefur haldizt óbreyttur frá upphafi, enda fellur hann vel að alþýðlegu hlutverki staðarins. Þótt nýi Laugaás sé fagurlega innréttaður í nýtízkulegum stíl, er gamli Laugaás notalegri.

Að hætti góðra veitingahúsa er matseðillinn breytilegur frá degi til dags og jafnvel milli hádegis og kvölds. Þar eru fimm eða sex fiskréttir og svipaður fjöldi kjötrétta. Fiskréttir kosta yfirleitt rétt innan við þúsund krónur og kjötréttir um 1150 krónur, hvort tveggja að súpu innifalinni. Búðingur er innifalinn á sunnudögum.

Súpur dagsins eru af ýmsu tagi. Ég man eftir góðri gulrótarsúpu, sæmilegri seljustönglasúpu og lélegri brokkálssúpu. Þær eru veikasta hlið staðarins, stundum þykkar, einu sinni kekkjuð og stundum of saltar. Hrásalat með aðalréttum er einfalt og borið fram sér.

Fiskurinn er staðartrompið, yfirleitt hæfilega eldaður eða aðeins lítillega ofeldaður og með hæfilega lítið elduðu og stinnu meðlæti. Rjómasoðinn steinbítur með sítrónupiparsósu var góður. Gufusoðnar gellur í appelsínusósu voru mjúkar og góðar, alveg hæfilega eldaðar, en sósan var nokkuð áberandi, þótt góð væri út af fyrir sig. Rjómasoðinn búri með rækjum og grænmeti í rjómasósu var vel eldaður. Pönnusteikt rauðspretta með vínberjum í rósapiparsósu var einnig góð, en með of miklu raspi.

Um kjötréttina veit ég minna, því að fiskurinn freistar mín mest. Um daginn prófaði ég þó góðan bixímat með spæleggi, heimabökuðu og loftmiklu rúgbrauði og béarnaise- sósu. Á sama matseðli var fleira þjóðlegt, svo sem bjúgu og lifur. Gott rúgbrauð staðarins er líka borið fram með plokkfiski, þegar hann er á matseðlinum.

Kaffi er gott og nú er borðvín á boðstólum. Því er ekki haldið að fólki og ég hef ekki séð það pantað, enda eru gestir yfirleitt ekki “úti að borða”, heldur að rækta leti sína eða mega ekki vera að því að elda heima hjá sér.

Tízkan kemur og fer, en Laugaás er óbreyttur. Hann hefur lengi verið fastur punktur í tilverunni og ætlar að verða það áfram. Hann er orðinn hluti af klassíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV