Tveir sólargeislar

Greinar

Niðurstaða úrskurðarnefndar í kleinumálinu er sólargeisli í skammdegi smákóngakerfisins á Íslandi. Ein af vandræðastofnunum þjóðfélagsins, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, hefur fengið verðuga ofanígjöf fyrir ósæmilegt sölubann á kleinur, sem soðnar voru í heimahúsi.

Annar sólargeisli þessa máls eru gamansöm bréfaskipti landlæknis og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, þar sem þeir gera stólpagrín að afskiptasemi og smámunasemi heilbrigðiseftirlitsins. Bréfin benda til, að úrelt sjónarmið þess njóti ekki hljómgrunns í opinbera geiranum.

Mikilvægt er, að menn verði áfram vel á verði, því að heilbrigðiseftirlitið hefur hótað að fá sett ný lög, sem taki af allan vafa um, að það megi áfram ráðskast með svipuðum hætti og það hefur gert áratugum saman, þjóðfélaginu til margvíslegrar bölvunar og kostnaðar.

Þjóðfélagið er sneisafullt af litlum stofnunum, þar sem sitja smákóngar við að semja lagafrumvörp og tillögur til reglugerða, er þeir reyna að fá ráðherra til að styðja. Þegar pólitíkusarnir eru ekki á verði, nær margt af þessu valdboði fram að ganga. Stóri bróðir stækkar og stækkar.

Eftirlitsstofnanir í heilbrigðisgeiranum eru dæmigerðar fyrir þetta vandamál. Þær hafa til dæmis komið upp reglum um gífurlegar kröfur til ástands eldhúsa í þeim stofnunum, sem fá leyfi til að opna vínflöskur og hella innihaldinu í glös, rétt eins og slíkt sé mikið vandaverk.

Eftirminnilegt er hrokabréf, sem stofnun af þessu tagi sendi einu allra bezta matargerðarhúsi landsins, er var alveg óvenjulega skemmtilega búið antikmunum. Í bréfinu voru samstæð húsgögn sett sem skilyrði fyrir því, að þetta stjörnuveitingahús fengi vínveitingaleyfi.

Sumt af ruglinu úr smákóngastofnunum í heilbrigðiseftirliti stafar af reglugerðum, sem þær hafa látið þýða úr norsku. Þar á meðal er bann við sölu á ferskum kjúklingum. Eingöngu er leyft að selja frysta kjúklinga, sem frá sjónarhóli matargerðarlistar eru tæpast ætir.

Stofnanir af þessu tagi eru einnig notaðar til að vernda gróna hagsmuni í þjóðfélaginu. Af þeirri ástæðu fáum við ekki að njóta heimsins beztu osta eins og aðrar þjóðir og verðum í þess stað að sætta okkur við breytilega illa gerðar eftirlíkingar úr einokunarstofnunum.

Almennt svífur yfir vötnum smákóngastofnana í heilbrigðiseftirliti sú árátta, að heppilegt sé að gerilsneyða þjóðfélagið til að firra það sjúkdómahættu. Kaupstaðarbúar þurfa því að vera innundir hjá vinum í bændastétt til að fá ógerilsneydda og drykkjarhæfa mjólk.

Merkilegt er, að Íslendingar skuli sætta sig við, að fá í verzlunum eingöngu aðgang að mjólk, sem hefur verið forhituð, fúkkalyfjuð, gerilsneydd, fitusprengd og misþyrmt svo á annan hátt, að hún er orðin svo ónáttúruleg, að hún hefur alveg misst getuna til að súrna.

Gerilsneyðingarstefnan kemur í stað hins náttúrulega hreinlætis, sem tíðkast til dæmis hjá Frökkum, er bera af öðrum þjóðum í matargerðarlist, án þess að fólk deyi þar úr matareitrun við að nota eingöngu ferska vöru, en ekki frysta, gerilsneydda, forhitaða og innpakkaða.

Niðurstaða úrskurðarnefndar og gamansemi landlæknis í kleinumálinu eru því sannkallaðir sólargeislar í skammdegi smákóngaveldis og reglugerðafargans. Vonandi hefur úrskurðurinn fordæmisgildi og vonandi láta stjórnvöld ekki undan kveinstöfum svekktra smákónga.

Bezt væri að nota tækifæri kleinumálsins til að höggva í reglugerðakerfið og setja lög um að leiða verzlunarfrelsi og ferska vöru til hásætis í matargerð okkar.

Jónas Kristjánsson

DV