Skammtími í Smugunni

Greinar

Tjaldað er til einnar nætur í veiðum íslenzkra togara í Smugunni utan 200 mílna lögsögu Norðmanna og Rússa í Barentshafi. Þetta eru sjóræningjaveiðar, þótt útgerðir kunni að komast upp með svo sem einn túr, áður en smugunni verður lokað með einhliða eða tvíhliða aðgerð.

Úrelt er orðið í samskiptum ríkja, að unnt sé fyrir aðvífandi sjóræningja að veiða utan 200 mílna línunnar þann fisk, sem tengdur er staðnum og er ýmist innan eða utan línunnar. Með einhliða aðgerðum og tvíhliða samningum er verið að fækka slíkum möguleikum.

Ísland er um þessar mundir að vinna að auknum möguleikum strandríkja til að ráða fiskveiðum utan 200 mílna fiskveiðilögsögu. Það er brýnt fyrir langtímahagsmuni okkar að loka sem flestum íslenzkum hafsvæðum utan 200 mílnanna fyrir erlendum veiðiskipum.

Sjóræningjaveiðar okkar manna í Barentshafi skaða langtímahagsmuni okkar sem þjóðar. Þær draga úr líkum á, að réttindi strandríkja á borð við Ísland nái fram að ganga á alþjóðlegum vettvangi, og geta hæglega seinkað því, að við náum tökum á hafsvæðum utan 200 mílna.

Talsmenn veiðanna í Barentshafi játa, að engar líkur séu á, að Íslendingar nái handfestu á þeim miðum. Þeir segja, að fjárhagur útgerðarfélaga sé svo slæmur og ástand þorskstofna við Ísland svo dapurt, að veiðar í Smugunni veiti stundargrið á báðum þessum sviðum.

Ýmis rök mæla með veiðum Íslendinga í Barentshafi. Norðmenn hafa sjálfir látið undir höfuð leggjast að loka Smugunni með samningum og yfirlýsingum. Sjóræningjar hafa verið á veiðum þar, án þess að norsk yfirvöld hafi treyst sér til að beita varðskipum gegn þeim.

Það væri mismunun, ef Norðmenn stugga íslenzkum skipum frá Smugunni, er þeir hafa leyft veiðar sjóræningjaskipa undir þægindafánum ríkja á borð við Belize. Helzt væri, að þeir gætu af einhverjum öðrum ástæðum talið sig eiga hönk upp í bakið á Íslendingum.

Ef um slíkt er að ræða, kemur það vafalítið fram á fundum, sem haldnir verða um málið. Þeir fundir hljóta að leiða til niðurstöðu, því að þjóðir á borð við Íslendinga og Norðmenn leysa alltaf sín mál með þjarki og samningum, þótt ófriðlega kunni að horfa um tíma.

Bent hefur verið á, að fordæmi séu fyrir því, að Norðmenn kaupi sjóræningja af höndum sér. Þeir keyptu Grænlendinga af sér með því að láta þá hafa kvóta. Íslendingar hafa líka liðkað fyrir samningum með því að kaupa sjóræningja af höndum sér, til dæmis norska.

Með bjartsýni má halda fram, að einn túr hjá tuttugu togurum skapi slíka réttarstöðu íslenzkra togara, að Norðmenn muni telja henta sér að gefa eftir gagnvart Íslendingum á einhverju skyldu eða óskyldu sviði. Hagsmunaaðilar segja, að óhætt sé að láta á það reyna.

Íslenzk stjórnvöld leika tveim skjöldum. Annars vegar segist sjávarútvegsráðherra skilja sjónarmið Norðmanna og varar útgerðarfélög við að senda togara í Smuguna. Hins vegar setur hann ekki reglugerð til að stöðva veiðar eða löndun, heldur efnir til málfunda í ríkisstjórn.

Í meðferð málsins togast á skammtímahagsmunir vegna fjárvana útgerðar, aflabrests á þorski og möguleikanna á að selja Norðmönnum sjóránið fyrir aðra hagsmuni; og svo langtímahagsmunir Íslendinga af því að strandríki verði herra yfir nálægum hafsvæðum.

Gamla þumalputtareglan segir, að reynsla veraldarsögunnar sýni, að varðveizla langtímahagsmuna borgi sig almennt betur en varðveizla skammtímahagsmuna.

Jónas Kristjánsson

DV