Ef Alþýðuflokknum hlotnaðist embætti landbúnaðarráðherra í nýrri ríkisstjórn eftir næstu kosningar, yrði Sighvatur Björgvinsson ekki ráðherraefnið. Hans yrði talin þörf í einhverju alvöruráðuneytanna, því að þingflokkurinn er fámennur og mannval ekki sérlega mikið.
Landbúnaðarráðherra flokksins yrði Gunnlaugur Stefánsson, sem er meiri framsóknarmaður en meðalþingmaður Framsóknarflokksins. Hann er líka vanur að fá sitt fram með hótunum í þingflokknum og er efstur á lista yfir þá, sem friða þarf með ráðherraembætti.
Helzta vonin um stuðning Alþýðuflokksins við breytta landbúnaðarstefnu er, að Gunnlaugur falli út af þingi. Samkvæmt því er leiðin til úrbóta ekki að efla Alþýðuflokkinn í kosningum, heldur að halda honum niðri í því sex þingmanna fylgi, sem skoðanakannanir sýna núna.
Yfirlýst og prentuð stefna stjórnmálaflokka skiptir litlu, þegar á reynir. Mestu máli skiptir, hver er ráðherra, því að hann er kóngur í ríki sínu samkvæmt stjórnarskránni. Sérstaklega er þetta mikilvægt í landbúnaðarráðuneytinu vegna sérstöðu þess í stjórnsýslunni.
Landbúnaðarráðuneytið gerir búvörusamninga mörg ár fram í tímann og bindur hendur ókominna ríkisstjórna. Í þessum samningum gætir það ekki hagsmuna ríkisins, heldur hagar sér sem jafnan endranær eins og yfirfrakki hinna mörgu hagsmunaaðila í landbúnaði.
Tilgangslaust er fyrir neytendur og skattgreiðendur að vænta breytinga með nýjum og yngri þingmönnum flokkanna. Gunnlaugur er með yngstu þingmönnum Alþýðuflokksins. Sama er að segja um Sjálfstæðisflokkinn, þótt þar sé stundum kvartað út af landbúnaði.
Í stað Ingólfs frá Hellu, Pálma frá Akri og Halldórs Blöndals koma aðrir, sem ekki eru minni ærgildissinnar. Þar á meðal eru Einar Guðfinnsson og Sturla Böðvarsson, sem eru ekki minni framsóknarmenn en meðalþingmaður Framsóknarflokksins og Gunnlaugur Stefánsson.
Um Alþýðubandalag og Kvennalista er óhætt að segja, að þeir flokkar hafa yfirboðið Framsóknarflokk í ærgildisstefnu og munu gera það, ef öðrum hvorum hlotnaðist embætti landbúnaðarráðherra. Andi Steingríms Sigfússonar svífur yfir þeim vötnum vinstra vængsins.
Marklausar eru yfirlýsingar um landbúnaðarmál frá ungliðahreyfingum og öðrum stofnunum innan stjórnmálaflokkanna. Allir fimm þingflokkarnir eiga það sameiginlegt að setja ærgildið ofar manngildinu. Fé til fæðingardeildar verður að víkja fyrir búvörustyrkjum.
Fimmflokkurinn á þingi heldur þjóðinni í heljargreipum, sem kosta hana um átján til tuttugu milljarða króna á hverju ári. Lífskjörin eru lækkuð ár eftir ár, svo að unnt sé að halda úti innflutningsbanni búvöru, niðurgreiðslum, uppbótum og beinum landbúnaðarstyrkjum.
Kreppan sýnir bannhelgi fimmflokksins á landbúnaði. Ærgildisstefnan er rekin með fullum dampi, þótt þrengst hafi í þjóðarbúi. Kjósendur geta ekki gert sér neinar vonir um, að fimmflokkurinn hrófli við þessu ástandi, hvort sem hann heitir Alþýðuflokkur eða öðru nafni.
Þegar ungliðar flokkanna vaxa upp og komast á þing, verða þeir eins og Gunnlaugur Stefánsson, Einar Guðfinnsson og Sturla Böðvarsson eða eins og hinir, sem samþykkja bannhelgina með þögn sinni. Meðan fimmflokkurinn ræður ferðinni, blífur stefna Framsóknar.
Það verður fyrst eftir daga fimmflokksins, að manngildi verður sett ofar ærgildi. Það verður, þegar kjósendur hafa mannað sig upp í að reka fimmflokkinn úr starfi.
Jónas Kristjánsson
DV