Potturinn og pannan

Veitingar

Tveir áberandi þéttvaxnir ferðamenn sátu sinn við hvort borð og töluðu saman yfir ganginn, meðan þeir röðuðu í sig með augljósri velþóknun. Potturinn og pannan við Nóatún ofanvert er einn af hlaðborðsstöðunum, þar sem svangir geta farið aftur og aftur til að fylla á diskana.

Súpa dagsins, brauð og salatborð og kaffi kosta 790 krónur; 890 krónur með eftirréttaborði og frá 980 krónum og upp í 1390 krónur, ef með fylgir einn af tveimur til fjórum heitum aðalréttum dagsins. Barnamatseðill er á 390 krónur og sérstakt leikherbergi á staðnum.

Potturinn og pannan hefur verið rekinn á þennan hátt árum saman og hefur hægt og sígandi orðið örlítið þreytulegri með árunum. Það gerist afar hægt, en gildir um alla þætti; matreiðslu, þjónustu og umhverfi. Staðnum hefur farið lítillega aftur á sama tíma og samkeppni hefur aukizt, til dæmis af hálfu pastahúsa bæjarins.

Staðurinn hefur það umfram flesta samkeppnisstaðina, að verðið gildir jafnt að kvöldi sem í hádegi. Flestir eru aðeins með slík tilboð í hádeginu. Þetta þýðir, að staðurinn er áhugaverður kvöldmatarstaður í viðlögum fyrir fjölskyldur, til dæmis ferðafólk utan af landi. Hjón með tvö börn fá fullkomna kvöldmáltíð fyrir samtals 2.640 krónur, sem er algengt eins manns verð í bænum.

Tónar eru oft hátt stilltir og ekki alltaf áheyrilegir, til dæmis grúttimbrað væl í stíl Johnny Cash. Þetta er raunar algengur galli við hversdagsleg veitingahús hér á landi. Starfsólk telur, að gestir deili sama smekk á tónum.

Einnig fælir frá staðnum, að við borð, þar sem gestir ganga að afgreiðsludiski, situr stundum maður og mælir út gesti af augljósri forvitni og einsemd. Stammgestir af þessu tagi eru betur geymdir á afskekktum stöðum í veitingasal, svo að minna beri á þeim.

Oftast eru tvær súpur á boðstólum, önnur tær og hin hveitilöguð. Þær eru afgreiddar í örlitlum skálum, en gestir geta fengið ábót, ef þeir vilja. Tæru súpurnar hafa verið betri, einkum grænmetissúpa, en blómkálssúpa var einnig nokkuð góð, með vænum blómkálshnöppum.

Brauð úr Breiðholtsbakaríi er helzta trompið. Það er um þessar mundir betra en nokkru sinni fyrr, fjölbreytt og bragðgott. Hver getur skorið sér sneiðar að vild.

Salatborðið er líkt því, sem sjá má víða annars staðar í bænum, ekkert sérstaklega spennandi, en frambærilegt. Þar er ferskt grænmeti, þar á meðal sveppir, ennfremur pastaréttur, hrísgrjónaréttur og kartöflusalat.

Smjörsteikt smálúða dagsins var fremur þurr, borin fram með of mikið soðnum kartöflum og gulrótum, svo og ferskum sveppum og estragonsósu. Sjávarréttafantasía dagsins hafði að geyma lax, smálúðu og ýsu, fullmikið soðin, nema laxinn, og borin fram undir hlaða af ofelduðum rækjum og hörpufiski. Blandaðir sjávarréttir hússins, bornir fram á pönnu, voru of mikið eldaðir, eins og oftast vill verða með sjávarrétti á þessum stað.

Kryddlegnar lambalundir dagsins voru líka of mikið eldaðar, bornar fram með ágætri og sterkri grænpiparsósu. Sinnepskryddað lambafillet var heldur betra.

Á eftirréttaborði eru oftast þrjár tegundir af ís, tvær eða þrjár tegundir af niðursoðnum ávöxtum, kaldur búðingur og stundum sæmilegasta rjómaterta að auki.

Jónas Kristjánsson

DV