Hæstiréttur á bílastæði

Greinar

Þröngt má vera um hæstaréttarhús á bílastæðinu milli Landsbókasafns, Þjóðleikhúss og Arnarhvols, ef leyst eru vandamál, sem húsið hefur í för með sér. Bílageymsluhúsið andspænis Þjóðleikhúsinu getur komið í stað bílastæðisins og mætt nýrri þörf vegna nýja hússins.

Gott er að hafa þröngt milli húsa í miðborg Reykjavíkur, svo að gönguleiðir fólks séu sem stytztar á röltinu milli verzlana, þjónustu og opinberra stofnana. Helzt ætti að vera innangengt milli húsa og frá bílageymslum til húsa til að hlífa fólki sem mest við vetrarveðrum.

Raunar er merkilegt, að skipulagsstjórar skuli ekki hafa komið auga á, að veðurfar er annað meirihluta ársins í Reykjavík en í þeim útlendu borgum, þar sem þeir námu fræði sín. Íslenzkt veðurfar kallar á, að gangstéttir miðborga séu í góðu skjóli og sem mest undir þaki.

Þótt rysjótt veðurfar borgarinnar bjóði aðstæður til að þróa sérstaka, reykvíska skipulagslist, hefur lítið verið reynt að víkja frá suðrænni tízku. Flest opinber mannvirki eru látin standa ein og sér, svo að hægt sé að ganga í kringum þau eins og hvern annan minnisvarða.

Skipulagskröfur til nýja hússins fyrir Hæstarétt víkja ekki frá minnisvarðareglunni. Ef farið er varlega, verður hægt að ganga hringinn í kringum nýja húsið án þess að reka sig á önnur hús. En óneitanlega versnar aðstaðan til að dást að öllum þessum húsum úr öllum áttum.

Staða nýja hússins fyrir Hæstarétt víkur frá hefðum, sem hafa verið í gildi frá því að Stjórnarráð og Alþingishús voru byggð og þangað til kastali Seðlabankans var reistur. En ekki er farið alla leið til einhliða hússins, sem aðeins hefur framhlið út að yfirbyggðri gangstétt.

Þegar þannig er með daufum kjarki vikið frá úreltri hefð án þess að stökkva alla leið inn í nýja hefð, er hætt við, að úr verði eins konar millivegur, stígur óttans, sem yfirleitt reynist vera vandræðaleg leið, eins konar bastarður þess, sem var, og hins, sem verður.

Svo er önnur saga, hvort virðulegt sé að koma Hæstarétti fyrir á bílastæði. Þetta er ein af þremur stofnunum landsins, sem næst ganga Forsetaskrifstofu að virðingu. Hinar tvær eru Alþingi og forsætisráðuneyti, sem eru til húsa í virðulegum og gömlum húsum, er bera af öðrum.

Hægt væri að flytja Hæstarétt í Landsbókasafnið, sem fer að losna til ábúðar, af því að búið er efna til Þjóðarbókhlöðu og reisa hús fyrir hana á háskólasvæðinu. Þar með fengi æðsti dómstóll landsins virðulegt heimili og fallegt andlit út að einni af aðalgötum borgarinnar.

Þetta gerist ekki, af því að yfirkontóristar í stjórnkerfinu vilja sjálfir komast í Landsbókasafnið. Þeir hafa aðstöðu til að koma í veg fyrir flutning Hæstaréttar þangað. Staðsetning Hæstaréttar á bílastæði er bein afleiðing óheftrar frekju embættismanna framkvæmdavaldsins.

Niðurlæging Hæstaréttar í samkeppninni við eina grein framkvæmdavaldsins um hús Landsbókasafns er raunar í stíl við almenna niðurlægingu Hæstaréttar sem afgreiðslustofnunar hins opinbera við sýknun framkvæmdavaldsins af brotum þess á borgurum landsins.

Með því að troða dómstólnum á rönd milli hversdagslegra ráðuneyta er efld ímynd Hæstaréttar sem einnar af deildum framkvæmdavaldsins, ótal virðingarþrepum neðan við Seðlabankann, sem trónir frjálslega í kastala sínum framan við þéttskipaðar lóðir Ingólfsstrætis.

Þannig má lesa í lóðarúthlutun til Hæstaréttar eins og lesið var í gamla daga í myndir af ráðamönnum Sovétríkjanna á þaki grafhýsis Leníns á Rauða torginu.

Jónas Kristjánsson

DV