Óþverrinn smitar

Greinar

Eðlilegt er, að fólk setjist til borðs með andstæðingum sínum. Aðilar að kjaradeilum þurfa oft slíkan ramma til að leita sátta. Sama gildir um stjórnmálamenn og starfsmenn í utanríkisþjónustu, sem leita lausnar í erfiðum málum, er snerta hagsmuni hópa eða heilla þjóða.

Menn setjast hins vegar ekki til borðs með morðingjum, þótt þeir séu bara skrifborðsmorðingjar á borð við Eichmann. Menn setjast ekki til borðs með stríðsglæpamönnum og þeim, sem drýgja glæpi gegn mannkyni, eins og slíkir glæpir eru skilgreindir í sáttmálum þjóða.

Þess vegna sezt fólk ekki til borðs með Símoni Peres, sem á þátt í morðum á nokkur hundruð börnum og margbrýtur alþjóðlega sáttmála, sem varða stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Menn dást ekki heldur að því, að hann sé skárri en önnur fól í stjórn Ísraels.

Það stríðir gegn heilbrigðum mannasiðum að setjast til borðs með fólki af tagi Peresar. Með því eru menn óbeint að samþykkja framferði þeirra og óhreinka sig af þeim. Aðeins tilkvaddir samningamenn mega fórna sér í skítverk af tagi kvöldverðar með Símoni Peres.

Miklu frekar er hægt að setjast til borðs með Yasser Arafat, þekktasta leiðtoga Palestínumanna, þótt hann sé á gráa svæðinu sem fyrrverandi hryðjuverkamaður. Á síðustu árum hefur hann sýnt bót og betrun, en stjórnvöld Ísraels hafa hins vegar krumpazt meira og meira.

Eftir fráfall Sovétríkjanna er miklu einfaldara en áður að fara eftir skráðum reglum í alþjóðlegum sáttmálum, þegar menn ákveða borðfélaga sína. Horfin er að mestu hin tvíhliða spenna, sem áður einkenndi heimsstjórnmálin og gerði fólum kleift að skýla sér í fylkingum.

Við val á borðfélögum er ekki nauðsynlegt að stunda sagnfræði áratugi aftur í tímann. Það er nóg að forðast glæpamennina, sem eru að drýgja glæpi um þessar mundir eða hafa drýgt þá á undanförnum mánuðum. Smám saman má taka í sátt þá, sem hættir eru glæpum.

Augljóst er, að ekki má setjast til borðs með ráðamönnum Serbíu og Ísraels. Ekki má heldur setjast til borðs með ráðamönnum Íraks og Indónesíu. Og ekki má setjast til borðs með ráðamönnum Malaví og Kenýa. Einkum má þó ekki setjast til borðs með ráðamönnum Kína.

Rétt er að vekja athygli á þessu síðasta, því að alþjóðlega ólympíunefndin er að falla í þá gryfju að samþykkja ólympíuleika í Kína árið 2000. Með því væri nefndin að veita fjöldamorðingjum og stórglæpamönnum Kínastjórnar svipuð verðlaun og Hitler fékk árið 1936.

Þeir, sem falla í slíkar gryfjur, hætta að verða húsum hæfir. Ef menn vilja í raun fá ráðamenn þjóða til að fara eftir alþjóðlegum sáttmálum, mega þeir ekki reka erindi glæpamanna með óbeinum hætti. Okkur ber að refsa slíkum kvislingum með því að hafna þeim pólitískt.

Það gildir um John Major, forsætisráðherra Bretlands, sem hefur gengið fram fyrir vestræna skjöldu til að koma í veg fyrir aðstoð við Bosníu og drepa á dreif aðgerðum gegn Serbíu. Ennfremur um Francois Mitterrand Frakklandsforseta, sem hefur stutt Major í þessu.

Nóg er af valdamönnum ríkja og stofnana í heiminum, sem hvorki hafa forustu í níðingsverkum um þessar mundir né styðja þau beint eða óbeint. Af nógum er að taka, ef menn vilja bjóða þeim til sín og setjast með þeim til borðs. Ástæðulaust er að óhreinka sig á hinum.

Kvöldverður með barnamorðingja frá Ísrael óhreinkar alla þá, sem þar sátu, meðal annarra nokkra íslenzka ráðherra og embættismenn og aftaníossa kerfisins.

Jónas Kristjánsson

DV