Samkomulagið milli Ísraels og Palestínu um eitt lítið skref í átt til friðar stafar fyrst og fremst af vaxandi áhyggjum málsaðila af áliti almennings og ráðamanna á Vesturlöndum. Það stafar meðal annars af, að farið er að sýna ráðamönnum Ísraels opinbera fyrirlitningu.
Í Evrópu er almenningur þegar farinn að átta sig á, að framferði Ísraelsstjórnar á hernumdu svæðunum og í öðrum löndum brýtur í bága við undirritaða sáttmála, sem eru hornsteinn samfélags þjóðanna. Skammt er í, að almenningur í Bandaríkjunum sjái þetta líka.
Ef Ísrael glatar stuðningi Bandaríkjanna, verður útilokað fyrir hryðjuverkaríkið að halda áfram á óheillabraut barnamorða og annarra stríðsglæpa og glæpa gegn mannkyninu eins og þeir eru skilgreindir í alþjóðlegum samþykktum. Þetta eru ráðamenn Ísraels farnir að sjá.
Þegar evrópskir utanríkisráðherrar eru farnir að gera sér upp erindi og annir til að þurfa ekki að sitja til borðs með Símoni Peres; þegar evrópskir fjölmiðlar nota heimsóknir hans til að rifja upp glæpi Ísraels, þá gerist slíkt hið sama fyrr eða síðar einnig í Bandaríkjunum.
Þegar værukærir ritstjórar á Norðurlöndum eru farnir að andmæla bandarískum hugmyndum um ársfund samtaka þeirra í Jerúsalem, er það bara eitt af ótal litlum lóðum á sömu vogarskálina, sem segir Bandaríkjamönnum, að Ísrael sé komið langt yfir strik velsæmis.
Frelsissamtök Palestínumanna hafa fyrir löngu áttað sig á, að stofnun Palestínu hefst ekki með hryðjuverkum. Þau hafa um árabil reynt að fara friðsamar leiðir að markinu. Fyrir bragðið hefur almenningsálitið á Vesturlöndum smám saman verið að snúast á sveif með þeim.
Samningurinn við Palestínumenn stafar ekki af, að Símon Peres sé eins mikið góðmenni og talið er af ruglukollum í fréttamannastétt Íslands, heldur af því að hann er greindari en gengur og gerist. Hann sér á undan öðrum, að óveðursskýin hrannast upp við sjóndeildarhring.
Peres hefur tvenns konar markmið með samningnum við Palestínu. Hann er að létta erlendum þrýstingi af ríkisstjórn Ísraels, svo að hún hafi betra svigrúm við framvindu málsins. Og hann er að deila og drottna með því að kjúfa Palestínumenn í tvær fylkingar.
Annars vegar eru Frelsissamtök Palestínumanna, sem eru tiltölulega friðsamleg og munu taka við heimastjórn í Gaza og Jeríkó. Hins vegar eru róttækir hópar og ofsatrúarhópar Palestínumanna, sem hafa sópað til sín fylgi vegna undanfarinnar hryðjuverkastefnu Ísraelsstjórnar.
Palestínumenn hafa áratugum saman verið einna bezt menntaðir og mest vestrænir allra íslama. Það hlýtur að vera alvarlegt áhyggjuefni, að ofbeldi Ísraels hefur magnað upp í Palestínu svipaða ofsatrú og vesturhatur og einkennir Íran og nokkur önnur ríki íslams.
Klofningur er ekki aðeins í röðum Palestínumanna. Þjóðfélag Ísraela hefur raunar krumpazt enn meira, svo sem mælzt hefur í skoðanakönnunum. Stjórnarandstaðan og umtalsverður hluti almennings telur Palestínumenn vera eins konar hunda, utan mannréttinda.
Við skulum fagna í hófi nýja samningnum. Við skulum bíða eftir brottflutningi ísraleskra landnema frá hernumdum svæðum í Palestínu. Við skulum bíða eftir stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna á hernumdu svæðunum. Þá fyrst er ástæða til mikilla fagnaðarláta.
Og fyrir alla muni skulum við halda áfram að sýna ráðamönnum Ísraels, að við fyrirlítum stríðsglæpi þeirra og glæpi þeirra gegn mannkyni, unz þeir hætta glæpum.
Jónas Kristjánsson
DV