Látið fimmflokkinn skjálfa

Greinar

Smám saman er að færast meiri þungi í baráttuna fyrir viðskiptafrelsi og afnámi sérstakra ríkisafskipta af landbúnaði. Þegar þrengir í búi þjóðarinnar, fjölgar þeim smám saman, sem sjá ekki ástæðu til að sætta sig lengur við árlegan 18-21 milljarðs kostnað af núverandi stefnu.

Enn er langt í land. Hagsmunasamtök landbúnaðarins, með ráðuneytið sjálft í broddi fylkingar, hafa komið á fót búvörusamningum, sem gilda til langs tíma og koma í veg fyrir, að nýjar ríkisstjórnir geti vikið að marki frá landbúnaðarstefnu fyrri stjórna. Þannig tefst þróunin.

Nú er þó svo komið, að neytendur og skattgreiðendur geta helzt knúið fram minnkun útgjalda á þessu sviði með því að draga úr kaupum á þeim afurðum, sem þjóðfélagið ábyrgist. Þetta gera þeir í raun og eru þar með farnir að skjóta hagsmunasamtökunum skelk í bringu.

Almenningur veit af biturri eigin reynslu eða reynslu vina og vandamanna, að fólk missir vinnu og fær ekki aðra; að fólk stofnar fyrirtæki og fer á höfuðið, án þess að ríkið komi til skjalanna og ábyrgist vinnuna eða fyrirtækið. Aðeins landbúnaður er undanþeginn lögmálinu.

Fólk er líka farið að átta sig á, að stjórnarráðið er hagsmunavirki landbúnaðar. Við landbúnaðaráðuneytið bætist fjármálaráðuneytið, sem reynir með peningalegum aðgerðum að koma í veg fyrir innflutning á vörum, sem geta talizt fela í sér samkeppni við landbúnað.

Um daginn var komið í veg fyrir innflutning smjörlíkis og nú er verið að leggja stein í götu innfluttrar skinku. Þetta er stutt sjúkdómarökum, sem horft er framhjá, þegar einstaklingar flytja slíka vöru til landsins. Enda vita allir, að sjúkdómarökin eru bara þægindarök.

Heimsmarkaðsverð á búvöru er raunverulegt verð, sem byggist á því, að til eru þjóðir, er geta framleitt á því verði. Þetta gildir um Bandaríkin á sumum sviðum, Ástralíu og Nýja-Sjáland á öðrum, og svo framvegis. Aðrir verða að selja á sama verði og borga með vörunni.

Af því að offramleiðsla er á flestri búvöru og verður um ókomin ár, ríkir kaupendamarkaður á þessu sviði. Það þýðir, að betra er að kaupa búvöru en selja og betra að snúa sér að arðbærum verkefnum á öðrum sviðum, þar sem samkeppnin er ekki eins gróin og hörð.

Ríkið ákveður ekki fyrir hönd neytenda og skattgreiðenda, hvaða vörur þeir noti og fjármagni. Fólk fær sjálft að velja sér gallabuxur, innlendar og erlendar, dýrar og ódýrar, vandaðar og lélegar, með þessu vörumerkinu eða hinu. Þetta valfrelsi ætti einnig að gilda um búvöru.

Okkur hefur miðað áleiðis, þótt hægt fari og umræðan sé orðin áratuga gömul. Hagfræðingar, sem ekki eru bundnir hagsmunatengslum, hafa látið meira en áður í sér heyra. Andófið er ekki lengur bundið við örfáa menn. Fyrr eða síðar hljóta varnir kerfisins að bila.

Fólk er smám saman að átta sig á, að ríkisstuðningur og innflutningsbann stríðir gegn hagsmunum þess. Þeim fjölgar, sem telja eðlilegt, að fólk njóti markaðslögmála á þessu sviði sem öðrum. Næsta skref er, að þessi viðhorf leiði til raunverulegra átaka í stjórnmálum.

Sem þrýstihópur getur almenningur greitt atkvæði í prófkjörum gegn þingmönnum og í kosningum gegn flokkum, sem gagnast ekki í frelsisbaráttunni eða hafa reynzt henni beinlínis andvígir í reynd. Sigur hefst ekki, nema skipt sé út mönnum og flokkum í pólitíkinni.

Þegar fimmflokkurinn fer að skjálfa af ótta við hefnd kúgaðra neytenda og skattgreiðenda, er fyrst hægt að búast við, að þrýstingurinn leiði til uppskurðar.

Jónas Kristjánsson

DV