Vanhæfni á toppnum

Greinar

Sífelldar tafir á niðurstöðu í alþjóðlega fríverzlunarklúbbnum GATT um nýjar reglur milliríkjaviðskipta eru bezta dæmið um, að stjórnmálamenn og embættismenn Vesturlanda eru almennt ekki starfi sínu vaxnir. Þeir vinna gegn hagsmunum almennings hver í sínu landi.

Fulltrúar hvers ríkis fyrir sig reyna að ota fram takmörkuðum sérhagsmunum innan ríkisins gegn almannahagsmunum í sama ríki. Þeir reyna að koma í veg fyrir, að neytendur þess sama ríkis öðlist bætt lífskjör í kjölfar lægra vöruverðs og breyttra atvinnuhátta.

Þjarkið í GATT felur í sér, að ríki bjóða takmarkaðar lækkanir tolla og annarra viðskiptahindrana gegn því, að hin ríkin bjóði fram jafngildar lækkanir á móti. Hugarfarið að baki felur í sér þá firru, að eigin lækkanir séu fórn mín og tjón, en lækkanir hinna séu gróði minn.

Þannig lítur þetta út frá sjónarhóli sykurframleiðenda í Bandaríkjunum, hrísgrjónaræktenda í Japan, bílaframleiðenda í Evrópu og landbúnaðarkerfisins á Íslandi. Allir þessir sérhagsmunir reyna að koma í veg fyrir samkeppni frá innflutningi á heimsmarkaðsverði.

Kostnaðurinn við að vernda störf á þessum sviðum nemur yfirleitt meiri fjárhæðum en launum manna á sömu sviðum, í sumum tilvikum margfalt meiri fjárhæðum. Kostnaðurinn við að vernda störf í landbúnaði á Íslandi er meiri en laun alls fólks í landbúnaði.

Reynslan af verzlunarsögu heimsins segir einmitt þá sögu, að sá græðir mest, sem lækkar tolla og aðrar viðskiptahindranir mest. Fólkið í því landi nýtur fyrir vikið mun betri lífskjara og fjármagn sparast til að leggja í nýjar greinar, sem taka við af hinum úreltu.

Landbúnaður á heima í tempruðu og hlýju loftslagi. Vinnuaflsfrekar greinar á borð við skipasmíði og vefnað eiga heima í láglaunaríkjum. Þekkingariðnaður á heima í ríkjum góðrar menntunar. Og ferðaþjónusta á heima á stöðum, þar sem eitthvað spennandi er að skoða.

Þessi fáu dæmi segja í stuttu máli, að þjóðir verða ríkar á því að láta öðrum þjóðum eftir landbúnað og vinnuaflsfrekar greinar og efla í staðinn eigin þekkingariðnað og atvinnu, sem byggist á aðstæðum og staðháttum, svo sem sjávarútveg og ferðaþjónustu á Íslandi.

Frá sjónarhóli almannahagsmuna eru útflutningur og innflutningur tvær hliðar á sömu krónu, hvorug æðri hinni. Við græðum eins mikið á innflutningi ódýrrar vöru eins og við græðum á útflutningi þeirra afurða og þjónustu, sem við höfum sérhæft okkur í að bjóða öðrum.

Varnarstríðið í varðveizlu sérhagsmuna í fortíðargreinum heldur háu verðlagi og lágum lífskjörum um leið og það brennir peninga, sem betur væri varið í nýjar greinar, sem horfa fram á veg. Þetta er ekki umdeild kenning, heldur almennt viðurkennd í hagfræðinni.

Stjórnmálamenn og embættismenn öflugustu ríkja heims hafa betri aðstöðu en aðrir til að sjá þetta samhengi í heild og skilja það. Þeir eiga framar öðrum að átta sig á, að fríverzlunarstefna hvers ríkis fyrir sig færir því ríki meiri gróða en öðrum ríkjum, en ekki öfugt.

Samt reyna þeir á fundum í fríverzlunarklúbbnum GATT að koma í veg fyrir, að almenningur og framtíðargreinar í eigin landi fái að njóta ávaxta af aukinni fríverzlun í heiminum. Þeir reyna í staðinn að þjóna voldugum sérhagsmunum á borð við íslenzkan landbúnað.

Þannig er það sameiginlegt með íslenzkum og erlendum stjórnmálamönnum og embættismönnum, sem um þessi mál fjalla, að þeir eru ekki starfi sínu vaxnir.

Jónas Kristjánsson

DV