Í tvígang hefur Óttar Guðmundsson geðlæknir strokið geði lesenda Fréttablaðsins með fínu koseríi í Bakþönkum. Í dag ræðir hann Jóhannesa Birkilanda nútímans, sem fylla síður og stundir fjölmiðla og jafnvel heilar bækur. Með „Harmsögu ævi minnar, hvers vegna ég varð auðnuleysingi“. Bókaútgefendur telja harminn vera ávísun á feita umræðu og rennsli inn á metsölulista. Sérfræðingar í auðnuleysi eru á hverju strái og dásama hina sálrænu stólpípu harmsögunnar í fjölmiðlun. Jóhannes Birkiland var uppi á röngum tóma og uppskar háð og spott. Hann hefði unað sér vel á þeysireið milli fjölmiðlanna, veifandi frábærri harmsögu sinni.