Hornið

Veitingar

Hornið á Tryggvagötu og Pósthússtræti hefur nærri ekkert breytzt frá því að þessi litla matar- og kaffistofa tók virkan þátt í reykvísku veitingabyltingunni fyrir rúmum ártug. Miklar sviptingar hafa orðið í greininni á þessum stutta tíma, en Hornið hefur alltaf verið klettur í hafinu og raunar notið sívaxandi vinsælda sem samkomustaður.

Stílhreinn svipur og búnaður Hornsins hefur haldizt óbreyttur. Risastórir og tjaldalausir gluggar og ljósbrúnir og víðáttumiklir loftljósaskermar einkenna staðinn. Á steinflísagólfi standa léttir stólar úr sveigðum viði og hringlaga marmaraborð á stálfótum. Blár liður er í körmum, súlum og bitum, viðarlitur í veggjum og hvítt í lofti.

Plaköt og listaverk hanga á veggjum eins og til þess að undirstrika, að Hornið ætlar sér að vera óformlegur og notalegur samkomustaður uppalegra menningarvita, sem tekst raunar. Listsýningar og tónleikar hafa stundum verið í Djúpinu, kjallaranum undir veitingasalnum. Þar bíður fólk oft hópum saman eftir að borð losni.

Þjónusta og matreiðsla hafa dofnað. Nýjabrumið er farið af ítalska stílnum. Starfræktar eru matstofur, sem gera þeim matarstíl betri skil, Pasta Basta, Primavera og Ítalía, en þær eru óneitanlega dýrari. Hornið situr eftir sem hálfgerður pizzustaður, ekkert betri en ótalmargir slíkir, en auðvitað miklu notalegri. Það dregur ekki úr vinsældunum, enda stendur verðlagið fyrir sínu.

Pöstur kosta 920 krónur og pizzur 850. Betri kaup eru í tveimur réttum dagsins, sem taldir eru upp á krítartöflu. Meðalverð þeirra er um 875 krónur, að súpu innifalinni, og virðist það verð gilda jafnt að kvöldi sem í hádegi. Að þessu leyti er staðurinn samkeppnishæfur í hádeginu og sérstaklega áhugaverður að kvöldi, því að þá er meðalverðið hærra víðast annars staðar. Af fastaseðli hússins kostar þríréttuð máltíð 2310 krónur.

Rjómalöguð grænmetissúpa úr tómatkrafti var fremur illa hrærð í eitt skiptið, en vel í annað. Betri var svipuð sjávarréttasúpa, sem hafði aðallega að geyma rækjur. Brauð var einfalt og hálfsætt, volgt og minnti á snúð.

Ofnbakaðir sveppir með kotasælu og hvítlauk voru bragðgóðir, stinnir og stórir. Eggjakaka með sveppum og papriku var fremur létt. Þetta eru forréttir á fastaseðli.

Pasta með pepperoni, sveppum og hvítlauk í rjómalagaðri tómatsósu var frambærileg. Sama er að segja um pizzu með pepperoni, sveppum og ananas.

Tindabikkja með steinselju og sítrónusmjöri var hæfilega elduð og eftir því bragðgóð. Steinbítspiparsteik með hrísgrjónum og salati var afar mikið pipruð, en að öðru leyti góð. Afleitar voru hins vegar ofsteiktar og seigar lundabringur. Meðlæti staðarins var algerlega staðlað, nema hvítar kartöflur með fiski og bökuð kartafla með kjöti. Grænmeti var yfirleitt mildilega soðið.

Terta Hornsins var létt og ljúf ávaxtafroðuterta með búðingi milli laga. Heit eplabaka með rjóma og ís var sæmileg. Bezt eftirrétta var Pecan Pie möndlubaka.

Vinsældirnar stafa ekki af matnum, sem er upp og ofan, heldur af stílnum og stemmningunni. Stíllinn er heilsteyptur og léttur kaffihúsabragur svífur yfir vötnum. Þetta kallar á þá tegund matargesta, er fylla myndina, sem staðurinn er að skapa. Þannig gengur dæmið upp.

Jónas Kristjánsson

DV