Hún er hræðileg

Greinar

Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins eru verðbréfafyrirtæki farin að vara fólk við að fjárfesta eingöngu í ríkisskuldabréfum og benda því á að dreifa áhættunni með kaupum á erlendum bréfum. Á sama tíma minnkar lánstraust íslenzka ríkisins og lánakjör þess versna í útlöndum.

Það er ótrúlegt, að svona skuli geta farið. Ríkið á að vera örugg fjárfesting, því að það hefur skattlagningarvaldið og veðsetur þar á ofan afkomendur okkar fyrir sukki líðandi stundar. Þegar menn segja ríkið áhættusamt, eru þeir að segja, að það geti orðið gjaldþrota.

Núverandi ríkisstjórn hefur haldið hörmulega á fjármálum ríkisins. Hún hefur í senn gert fjármálaráðherra sinn að skattakóngi Íslandssögunnar og hallakóngi hennar. Þetta er staðan fyrir birtingu fjárlagafrumvarps næsta árs, sem markar endanlega uppgjöf ríkisstjórnarinnar.

Hún hefur ákveðið að láta reka á reiðanum á næsta ári og hefur fengið til þess stuðning þingflokka sinna. Tilraunum til að spara í ríkisrekstri hefur að mestu verið hætt. Það mun endurspeglast í fjárlagafrumvarpi með halla, sem fer hátt yfir tíu milljarða króna.

Í fyrra og fram eftir þessu ári reyndi ríkisstjórnin að spara með því að höggva í velferðarkerfið. Í sumar átti hún kost á því að halda áfram að rífa það niður eða byrja að snúa sér að landbúnaði, sem að mestu hefur verið stikkfrí. Hún tók hvorugan kostinn og kaus að láta reka.

Erlendar skuldir þjóðarinnar hafa vaxið úr hættumörkum og upp fyrir þau á skömmum ferli ríkisstjórnarinnar. Skuldirnar eru komnar yfir 65% af landsframleiðslu ársins eftir að hafa í upphafi þessa árs farið yfir 60%, sem eru alþjóðlega viðurkenndu hættumörkin.

Um áramótin námu erlendar skuldir okkar 230 milljörðum króna. Í marz voru þær komnar upp í 234 milljarða. Nú eru þær komnar í 250 milljarða. Eftir óbirtu fjárlagafrumvarpi að dæma munu þær fara í 270-280 milljarða á næsta ári, í 70% af landsframleiðslu.

Forsætisráðherra afsakar sig með kreppunni, sem ríkisstjórnin átti raunar verulegan þátt í að búa til. Samt hefur hann hafnað því að mæta kreppunni sinni með því að höggva á landbúnaðarsukkið, sem eitt sér nemur 18-21 milljarðs árlegu tjóni þjóðarinnar.

Forsætisráðherra getur ekki höggvið á landbúnaðarsukkið, af því að hann ræður ekki við þingflokk sinn. Þar ræður ferðinni svartasta Framsókn, einkum í hópi yngri þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem hafa átt ótrúlega snöggan feril úr frjálshyggju yfir í Framsókn.

Alþýðuflokkurinn getur ekki beitt sér gegn þessu, því að hann hefur við hliðstætt vandamál að stríða á Alþingi, þótt í smærri stíl sé. Í rauninni felst vandamál þjóðarinnar í að hafa valið fimm Framsóknarflokka til að fara með löggjafar- og framkvæmdavaldið í landinu.

Ríkisstjórnin fer langt út fyrir áður þekkta Framsóknarmennsku, ef hún fer með fjárlagahalla ársins 1994 upp í fimmtán milljarða og erlendar skuldir þjóðarinnar upp í 70% af landsframleiðslu. En það mun hún gera samkvæmt óbirtu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1994.

Það er vont að lenda í kreppu, en það eru þó smámunir í samanburði við þá hremmingu þjóðarinnar að lenda í klóm þessarar hræðilegu ríkisstjórnar, sem stritast við að sitja sem fastast, þótt hún hafi misst stýri efnahagsmála og fjármála ríkis og þjóðar út í veður og vind.

Eini ljósi punkturinn í ruglinu er, að hugsanlegt er, að kjósendur átti sig á, að fimmflokkurinn á Alþingi er einskis trausts verður. Og þurrki hann út í kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV