Þeir hafa gefizt upp

Greinar

Sparnaðarleið menntaráðherra á þessu hausti felst í að reyna að flytja hundrað milljón króna kennslukostnað frá ríki til sveitarfélaga í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, rétt eins og kostnaðurinn hverfi með því að flytja hann milli stofnana í opinbera geiranum af þjóðarbúinu.

Þetta segir okkur, að menntaráðherra hefur gefizt upp á sparnaði og reynir ekki einu sinni að hafa sjónhverfingarnar snyrtilegar. Að því leyti endurspeglar hann ríkisstjórnina í heild. Hún er þegar búin að sætta sig við nýtt Íslandsmet í hallarekstri ríkisins á næsta ári.

Gengislækkunin í sumar markaði tímamót á ferli ríkisstjórnarinnar. Með henni lauk örvæntingarfullum tilraunum til að stjórna, sem einkenndu fjárlagafrumvarpið í fyrra, og hófst tímabil reiðileysis og ráðleysis, sem einkennir fjárlagafrumvarp stjórnarinnar á þessu hausti.

Háskólaprófessorar í hagfræði hafa hver á fætur öðrum gagnrýnt gengislækkunina. Þeir segja hana kennslubókardæmi um, hvernig ekki eigi að fella krónuna. Engin úrræði hafi fylgt lækkuninni, heldur hafi verðbólgan af hennar völdum farið óhindrað um þjóðfélagið.

Fjármálaráðherra hefur ekki haft bein í nefinu til að koma í veg fyrir, að allir hinir ráðherrarnir tækju sér völd yfirráðherra í fjármálaráðuneytinu. Og forsætisráðherra hefur afhent landbúnaðarráðherra þau völd, sem máli skipta, þegar valið er milli forgangsmálanna.

Fjárlagafrumvarp með mun meiri halla en tíu milljörðum er eðlilegt framhald af klúðraðri gengislækkun. Samanlagt gefa þessi tvö atriði skýra mynd af ríkisstjórn, sem hefur ákveðið að láta sér nægja að stritast við að sitja. Á skjaldarmerki hennar er skráð: “Er á meðan er”.

Allir hagfræðingar landsins eru sammála um, að erlendar skuldir þjóðarinnar séu komnar yfir viðurkennd hættumörk, jafnvel hagfræðingur ríkisstjórnarinnar. Í stað fimmtu hverrar krónu af gjaldeyrisöfluninni fer nú þriðja hver króna í að standa undir skuldasúpunni.

Á þessu ári einu hafa erlendar skuldir þjóðarinnar farið úr 60% af landsframleiðslu ársins upp í 65%. Með fjárlagafrumvarpi næsta árs fara þær upp í 70%. Með sama áframhaldi verður þjóðfélagið rjúkandi rúst, þegar kjörtímabili Alþingis lýkur eftir hálft annað ár.

Þegar vel árar, getur verið í lagi, að ríkisstjórnir séu ekki mjög duglegar. Í kreppum er meiri þörf á, að tekið sé til hendinni á toppnum. Við núverandi aðstæður er einmitt nauðsynlegt að hafa ríkisstjórn, sem reynir að auðvelda siglingu þjóðarinnar út úr kreppunni.

Almenningur í landinu hefur lagt sitt af mörkum til að gera þetta kleift. Með hverri þjóðarsáttinni á fætur annarri hefur fólk látið lífskjaraskerðingu yfir sig ganga. Lífskjör almennings hafa raunar rýrnað nokkuð meira en sem nemur samdrætti þjóðarbúskapar á sama tíma.

Þetta tækifæri hefur ríkisstjórnin ekki nýtt sér. Hún hefur ekki nýtt sér friðinn hjá þjóðinni til að standa af sér áhlaup þrýstihópa. Sumir hópanna eru raunar svo öflugir, að heilt ráðuneyti er ekkert annað en sendiráð sérhagsmuna utan úr bæ. Það er landbúnaðarráðuneytið.

Ríkisstjórnin hefur heldur ekki nýtt sér friðinn til að standast áhlaup þeirra sendiherra þrýstihópanna, sem eiga sæti á Alþingi. Ráðherrarnir hafa engan flokksaga á þessum sendiherrum, sem hafa hvað eftir annað kúgað ríkisstjórnina til að þjóna sérhagsmunum úti í bæ.

Drjúgur þáttur vandans felst í þeirri einföldu staðreynd, að uppgefnir og óöruggir ráðherrar hafa ekki bein í nefinu til að leiða þjóðina út úr kreppunni.

Jónas Kristjánsson

DV